140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Eftir stendur að fallið hafa ýmis gífuryrði af vörum ýmissa hauka í þingsal sem utan. Ég mun sleppa því að tala um hvað sagt hefur verið um okkur í stjórnarandstöðunni en ég vil hins vegar draga fram það sem sagt hefur verið um útgerðarmenn, að þeir vilji alls ekkert gera til að koma til móts við hina í málinu. Ég held að það sé fjarri lagi. Ég vitnaði í ræðum mínum fyrr í dag til orða forstjóra HB Granda, Eggerts Guðmundssonar, þar sem hann segir skýrt á starfsmannafundi að það væri ekki að útgerðin gæti ekki borgað hærra gjald. Það þyrfti bara að vera raunsætt og hóflegt til þess að fyrirtækin gætu haldið áfram til að þau stæðu ekki frammi fyrir því að þurfa að segja upp fólki.

Að mínu mati var forstjórinn jákvæður og bjartsýnn gagnvart því að lausn næðist fram (Forseti hringir.) í þessu máli. Hvers vegna náum við þá ekki saman þegar svona sterk orð falla, bæði af hálfu útgerðarmanna en ekki síður af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni?