140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að mikilvægt sé að horfa til þeirra þátta sem hv. þingmaður nefndi og laga þá með einhverjum hætti. Mér finnst í sjálfu sér mjög óeðlilegt að fyrirtæki sem ekki eru með fiskvinnslu taki þátt í að greiða auðlindagjald fyrir fyrirtæki sem eru með fiskvinnslu. Það getur varla hafa verið hugmyndafræðin og hlýtur að þurfa breytinga við.

Það er vitanlega alveg ljóst að það eru fyrirtæki í greininni sem geta greitt hærra gjald en þau gera í dag, en það eru hins vegar önnur fyrirtæki sem geta það ekki. Ég held að sú aðferðafræði sem lagt er upp með í þessu frumvarpi, að vera með eitthvert meðaltal sem fundið er út frá einhverri flókinni reiknireglu sem Hagstofan hefur sagt að hafi ekki verið fundin upp til að nota í þetta, sé allt of langsótt aðferð. Ég held að það sé betra að nota hreinlega skattkerfið til að ná í fleiri aura ef það er það sem menn ætla sér.