140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann út í það sem hann fjallaði um undir lok ræðu sinnar og sneri að mótmælunum á Austurvelli. Ég geri ekki neinum hv. þingmanni það upp að vilja með nokkrum hætti vinna vitandi vits gegn landsbyggðinni eða ýta undir átök á milli byggða. En það má nokkuð ljóst vera af þeim umsögnum sem við höfum fengið um þetta frumvarp að veiðigjaldið mun koma þungt niður á fjölmörgum byggðum landsins, hinum dreifðu byggðum, minni sjávarbyggðunum. Vel mátti greina þær áhyggjur sem þeir sem mættu á Austurvöll höfðu af þessum málum og við sjáum þess líka stað í þeim umsögnum sem við höfum fengið frá sveitarstjórnarmönnum að þeir hafa þungar og miklar áhyggjur af þessu.

Ég hafði líka miklar áhyggjur af því að heyra hróp á Austurvelli eins og hér hefur verið sagt frá í þinginu, að hrópuð voru slagorð gegn landsbyggðinni. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að með þessu frumvarpi og þessum málatilbúnaði sé verið að reka fleyg á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar. Er ekki ástæða fyrir okkur til að setjast aðeins yfir það hvernig hægt er að nálgast málin á annan hátt en gert er í frumvarpinu til að koma í veg fyrir það? Ég held að það versta sem geti gerst í þessu öllu sé einmitt að þessi umræða fari vaxandi og ekkert skrýtið að hún geri það. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér, hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þessi umræða sé að aukast. Það er svo augljóst að í frumvarpinu er fólgin sú hætta að mörg af þeim byggðarlögum úti á landi sem nú þegar eru í erfiðleikum, standi ekki af sér þetta gjald og það eru þau skilaboð sem við höfum fengið. (Forseti hringir.) Þetta gjald á síðan að renna í ríkissjóð.