140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Í kvöld og í nótt hafa menn töluvert rætt um umræðuna um þessi frumvörp því að hún hefur á margan hátt verið sérkennileg. Því hefur til dæmis verið haldið fram af nokkrum hv. þingmönnum stjórnarliðsins að hér hafi safnast saman á Austurvelli í gær hópur fólks til að styðja ríkisstjórnina, styðja kvótafrumvörpin. Þetta rataði meira að segja í fréttir þar sem því var haldið fram að einhver hópur á Austurvelli hefði verið þar mættur til að styðja frumvörp ríkisstjórnarinnar. Þetta var auðvitað hinn mesti misskilningur. Þarna voru mörg hundruð sjómenn mættir til að mótmæla og biðla til ríkisstjórnarinnar um að efna að minnsta kosti til samráðs, hlusta örlítið á þau fjölmörgu álit og þær viðvaranir sem hafa borist þinginu vegna þessa máls. Samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins sem birtist fyrir fundinn — reyndar virtist Ríkisútvarpið síðan hafa gleymt eigin frétt — ætluðu Samtök íslenskra fiskimanna að afhenda ríkisstjórninni áskorun á fundinum. Í fréttinni segir, með leyfi forseta:

„Samtök íslenskra fiskimanna ætla að afhenda ríkisstjórninni áskorun á fundi sem haldinn verður á Austurvelli á morgun til að mótmæla fiskveiðifrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Grétar Mar Jónsson er formaður samtakanna:

„Við erum að óska eftir því að fá þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótann, í fyrsta lagi. Í öðru lagi viljum við fá frjálsar handfæraveiðar og í þriðja lagi viljum við aðskilja veiðar og vinnslu og svo viljum við fá allan fiskinn á fiskmarkað.““

Það var sem sagt dálítill hópur mættur þarna með eigin stefnu. Hins vegar er enn þá verið að leita að einhverjum sem styður þetta mál sem ríkisstjórnin er að reyna að þvinga í gegnum þingið, einhverjum utan stjórnarflokkanna á Alþingi. Eins og komið hefur fram í umræðunni eru öll álit sem borist hafa þinginu vegna þessara frumvarpa mjög gagnrýnin nema ef vera skyldi álit sem barst frá Samfylkingunni sjálfri. Þó er rétt að geta þess að umsagnir fjölmargra sveitarstjórna um þetta mál hafa verið gagnrýnar, jafnvel þótt þær sveitarstjórnir séu skipaðar samfylkingarfólki eða meðlimum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Ég ætlaði í ræðu minni einmitt að skoða álit sveitarstjórna vítt og breitt um landið á þessum frumvörpum. Ég var búinn að nefna tvær eða þrjár en það er full ástæða til að fara betur í gegnum þessar umsagnir vegna þess að þær eru margar hverjar afar afdráttarlausar og í þeim er bent á atriði sem hefði kannski átt að teljast sjálfsagt að athuga þegar unnið er að frumvörpum sem varða undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það hefur engu að síður algerlega misfarist við vinnslu þessara mála.

Ég ætla að byrja á stuttri athugasemd frá Akureyrarkaupstað. Ég held að það sé svigrúm til að lesa hana alla vegna þess að hún er skorinorð og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Bæjarstjórn hefur á fundi sínum þann 17. apríl 2012 gert eftirfarandi bókun:

Bæjarráð vísaði á fundi sínum þann 12. apríl sl. 4. lið: Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (heildarlög), 657. mál og 5. lið: Frumvarp til laga um veiðigjöld (heildarlög), 658. mál, til frekari umræðu í bæjarstjórn.

Lögð fram tillaga að bókun svohljóðandi:

Fyrir Alþingi liggja nú frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og um veiðigjald. Því hefur ítrekað verið haldið fram að nái frumvörpin fram að ganga geti það haft mjög neikvæðar afleiðingar fyrir afkomu útgerðarfyrirtækja og þar með stöðu einstakra sveitarfélaga og íbúa þeirra.

Mikilvægt er þess vegna að fara vandlega yfir áhrif frumvarpanna áður en þingmenn taka afstöðu til þeirra.“

Hér vil ég gera örlítið hlé á lestrinum, virðulegur forseti, til að leggja sérstaka áherslu á þessa síðustu setningu, að mikilvægt sé að fara vandlega yfir áhrif frumvarpanna áður en þingmenn taka afstöðu til þeirra.

Ég hélt að það ætti að vera tilgangurinn með þessum umræðum í þingsal, að bæta málið. Hæstv. utanríkisráðherra lagði á það mikla áherslu við upphaf 2. umr. að umræðan í þingsal yrði til þess að gerðar yrðu breytingar á frumvarpinu sem hæstv. ráðherra virtist telja nauðsynlegar. Þess vegna þótti hæstv. ráðherra æskilegt að umræðan stæði sem lengst. Því miður hefur hæstv. ráðherra hins vegar ekki séð sér fært að taka mikinn þátt í umræðunni og er raunar ekki búinn að vera hér í nótt og í kvöld til að fylgjast með henni, hvað þá að taka þátt. Ég hef reyndar beðið hæstv. forseta um að kalla hæstv utanríkisráðherra á fundinn en ekki fengið svör frá virðulegum forseta. Vonandi verður bót þar á í ljósi þess að nú er kominn nýr forseti í forsetastól. En ég held áfram lestrinum á þessari stuttu greinargerð frá Akureyrarbæ:

„Bæjarstjórn Akureyrar leggur þunga áherslu á að ríkisstjórn Íslands og Alþingi láti vinna hlutlausa úttekt á áhrifum frumvarpanna á rekstrarskilyrði útgerðarinnar í bráð og lengd og þar með atvinnu og byggð í landinu. Niðurstöður þessarar úttektar verði aðgengilegar þingi og þjóð áður en kemur að endanlegri ákvörðun í málinu.“

Hér er aftur verið að ítreka mikilvægi þess að menn fari betur yfir málið áður en endanleg ákvörðun er tekin. Loks segir:

„Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.“

Eins og flestir þekkja þá eru ýmsir flokkar í bæjarstjórn á Akureyri, líklega sex, en fulltrúar þeirra allra fallast á þessa bókun og skilaboðin eru skýr.

Maður hefði reyndar talið að það þyrfti ekki að benda ríkisstjórninni á það sem bent er á hér, þegar hún fjallar um slíka hagsmuni fyrir samfélagið allt sem hér um ræðir, en því miður er ekki vanþörf á. Nú vil ég hvetja þá fáu stjórnarliða sem eru að fylgjast með umræðunum til að verða við þessari ósk Akureyrarbæjar. Sams konar óskir bárust reyndar eins og ég nefndi áðan frá fjölmörgum sveitarfélögum. Ég vil hvetja þá sem eru að fylgjast með umræðunni til að taka þetta til sín og verða við þessum ábendingum og mælast til þess við félaga sína að þeir fallist á að gera slíkt hið sama vegna þess að þetta er ekkert annað en sjálfsögð krafa. Þegar ríkisvaldið er að taka ákvörðun sem getur haft úrslitaáhrif á hag sveitarfélaga vítt og breitt um landið hlýtur það að vera sanngjörn og eðlileg krafa að brugðist sé við svo eindreginni beiðni frá þeim sömu sveitarfélögum.

Það er eins og rauður þráður í umsögnum sveitarfélaganna að fyrst og fremst er verið að biðja um að þessi mál verði yfirfarin á faglegan hátt. Það er ekki vanþörf á eins og við sjáum á þeirri yfirferð sem þegar hefur átt sér stað, á þeim umsögnum sérfræðinga sem hefur verið farið í gegnum í umræðunni. Reyndar skortir enn þá á viðbrögð hv. stjórnarliða við þeim ábendingum vegna þess að þeir hafa ekki séð sér fært að taka þátt í umræðunni. Þeir kjósa helst að hún eigi sér stað um miðjar nætur svo að þeir geti sofið á meðan vegna þess að auðvitað er þetta viðkvæmt, auðvitað er erfitt að hlusta á slíkar ályktanir og slík álit sérfræðinga þegar menn hafa lagt fram frumvarp. Það er hins vegar nauðsynlegt að gera það (Forseti hringir.) og ég er dálítið hræddur um að dómur sögunnar verði harður ef ríkisstjórnin ætlar að þvinga þetta í gegn án þess að taka mið af þeim fjölmörgu ábendingum sem borist hafa.