140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór yfir þær umsagnir sem hafa borist um málið og sérstaklega frá sveitarfélögunum. Það er alveg rétt að sveitarfélögin hafa verið mjög virk í því að senda fram athugasemdir sínar um þau frumvörp sem liggja fyrir Alþingi. Og af hverju skyldi það vera? Það er vegna þess að þeim er það ljóst að veruleg áhrif geta orðið af þessum frumvörpum verði þau samþykkt, annars vegar á fyrirtækin sem starfa í bæjarfélaginu og hins vegar á sveitarfélögin sjálf. Auðvitað er beint samhengi þarna á milli. Ef fyrirtækjunum vegnar illa þá vegnar sveitarfélögunum illa og það mun strax hafa áhrif á afkomu sveitarsjóðanna og búsetu manna á þeim svæðum.

Það sem hefur vakið athygli mína er hversu mikið menn hafa lagt í þessar umsagnir. Hér hefur verið leitað eftir áliti endurskoðunarfyrirtækja. Það er ekki bara það umrædda fyrirtæki Deloitte sem hefur skilað umsögnum. KPMG, það stóra fyrirtæki, hefur sömuleiðis gert það og athyglisvert að þau fyrirtæki komast að mjög líkri niðurstöðu.

Mér finnst ástæða til að draga þetta fram vegna þess að gagnrýnt hefur verið — það er gagnrýnt meðal annars í áliti meiri hluta atvinnuveganefndar ýmislegt sem kemur fram í áliti Deloitte. En mér finnst og þegar menn skoða þetta og bera saman þau álit sem koma fram frá fjöldamörgum aðilum þá ber þar eiginlega allt að sama brunni. Það er einmitt þetta sem vekur svo mikla athygli.

Það er alveg rétt að út af fyrir sig hafa farið fram miklar athuganir, þær athuganir sem ég var að vísa til og síðan athugun atvinnuveganefndar þannig að kannski má segja að að sumu leyti hafi verið brugðist við þeim óskum um að athuganir færu fram, en þær athuganir hafa hins vegar leitt allt þetta sama í ljós. Það er áfellisdómur yfir þessum frumvörpum. Það er ekki síst það, að mínu mati, sem gerir það að verkum að núna væri skynsamlegast að doka við. Nú er búið að vinna þessa vinnu. Það er búið að átta sig a.m.k. á sumu af því sem er algerlega ófært og þess vegna (Forseti hringir.) væri skynsamlegast að doka við, láta vinna þessi mál betur, reyna að leita meiri sátta og koma síðan með málin fullbúin síðar í haust.