140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað kjarni málsins að við erum komin á vissan hátt dálítið fram úr okkur í umræðunni. Umræðan sem á sér stað núna hefði þurft að fara fram miklu fyrr. Við hefðum einmitt þurft að vera að skiptast á skoðunum um einhverjar hugmyndir sem ríkisstjórnin hefði teflt fram sem við hefðum síðan getað unnið úr á miklu lengri tíma. Og staðan hefur sem sagt verið þessi: Frumvörpin voru lögð fram, leitað var eftir umsögnum, þær umsagnir komu, þær voru nánast allar neikvæðar, við í atvinnuveganefnd fengum valinkunna sérfræðinga til að skoða málin, þeir komust að sömu niðurstöðu; að þetta mál gengi ekki upp. Tilteknar breytingar hafa verið gerðar og ég hef lagt áherslu á það að alltaf er verið að gera breytingar á þessu veiðigjaldafrumvarpi, skárra væri það nú eins og það leit út. Að sumu leyti er verið að koma til móts við ákveðin sjónarmið en þá þurfa menn líka að skoða þá niðurstöðu í samhengi við frumvarpið um fiskveiðistjórnarlöggjöfina sem liggur fyrir Alþingi. Til að fá eitthvert vit í þetta þurfa menn að geta skoðað það í samhengi við það frumvarp.

Við getum sagt sem svo að miðað við það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum í dag þá geta aðstæður auðvitað verið til að borga hærra veiðigjald en menn gera einmitt á þessari stundu. En það getur hins vegar síðan allt saman breyst ef lagaramminn í kringum fiskveiðistjórnarkerfið gerbreytist og möguleikar manna til að takast á við þær auknu skuldbindingar minnka þar á móti. Við þurfum því að skoða þessa hluti. Bráðabirgðaniðurstöður sérfræðinganna sem við leituðum til voru þær að ljóst væri að þegar þessi mál væru skoðuð í því samhengi mundi sjávarútvegurinn í heild alls ekki ráða við þær auknu skuldbindingar. Þess vegna er mjög eðlilegt að sveitarfélögin hafi, þrátt fyrir þær breytingar sem búið er að gera á veiðigjaldafrumvarpinu, miklar áhyggjur vegna þess að mörg fyrirtæki eru þá einmitt í þeirri stöðu að óvissa verður í kringum rekstrarlegar forsendur þeirra, þar með óvissa í kringum stöðu sveitarsjóðsins og þar með óvissa í kringum það hvort fyrirtækin (Forseti hringir.) verði yfir höfuð til staðar á þeim stöðum í framtíðinni.