140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður bendir á einn af stóru göllunum við málsmeðferðina, hvernig staðið hefur verið að þessu máli. Hér erum við að ræða veiðigjald og velta fyrir okkur hvað sé forsvaranlegt að setja hátt veiðigjald á útgerðina án þess að fyrir liggi við hvaða aðstæður útgerðin muni búa, hverjar verði aðstæður hennar til að standa straum af greiðslu veiðigjalds. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum að menn skuli standa svona að málum. Bent hefur verið á það í fyrrnefndum álitum sérfræðinganna að í rauninni sé ekki forsvaranlegt að vinna hlutina á þennan hátt.

Til að útskýra hvað ég á við, frú forseti, má nefna öfgafullt dæmi. Ímyndum okkur að ríkisstjórnin kæmist að þeirri niðurstöðu að hún vildi haga stjórn fiskveiða á þann veg að einungis mætti nota árabáta við veiðar. Ég kallaði þetta öfgafullt dæmi en að vísu er núverandi ríkisstjórn trúandi til nánast alls. (IllG: Fara bara varlega.) Gefum okkur þetta dæmi. Ef ríkisstjórnin kæmist að þeirri niðurstöðu að einungis mætti nota árabáta og færði einhver rök fyrir því, hugsanlega teldi hún að þannig fengju fleiri vinnu við sjávarútveg, ég skal ekki segja, (Gripið fram í: Líf í hafnirnar.) líf í hafnirnar kallar einn hv. þingmaður fram í. Menn gætu sjálfsagt fundið einhver rök fyrir þeirri stefnu eins og þeirri stefnu sem kynnt hefur verið. En ef sú yrði raunin og það yrði þvingað í gegn, menn yrðu látnir tala fram á nætur og í allt sumar en ríkisstjórnin hefði einsett sér að koma þessu til leiðar, hver væri þá aðstaða útgerðarinnar til að greiða veiðigjald? Gæti útgerðin þá borgað 15 milljarða, 10 milljarða, 5 milljarða? Ég hef grun um að þá gæti útgerðin ekki borgað neitt og þar af leiðandi hefði verið fráleitt að ganga frá frumvarpinu og lögleiða hækkun veiðigjaldsins án þess að vera búin að taka fyrir breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.