140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kemur inn á atriði sem mér finnst í rauninni standa upp úr í allri umræðu um þetta mál og það er hvernig menn hafa misnotað hugtök og í mörgum tilvikum snúið þeim algjörlega á hvolf. Menn tala fyrir ákveðnum markmiðum en leggja svo fram frumvarp sem gengur þvert gegn þeim markmiðum, þykjast vera talsmenn almennings en eru í rauninni að skaða stórkostlega hagsmuni almennings. Þetta er því miður einkenni á mörgum mjög vinstri sinnuðum stjórnvöldum sem yfirleitt hafa einungis komist upp með slíkan málflutning vegna þess að þau hafa verið í einokunarstöðu í stjórn landa sinna.

Eins og ég hef getið um áður minnir margt í orðræðunni mjög á hugtakanotkun og orðræðu íslenskra kommúnista á millistríðsárunum. Nú eins og þá eru þetta meira og minna innantóm orð. Hv. þingmaður benti á að þeir flokkar sem nú eru í stjórnarandstöðu hefðu gert raunverulegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem hefðu raunverulega haft þau áhrif að efla byggðir. Þessar breytingar voru kannski ekki endilega til þess fallnar að auka hagkvæmni greinarinnar í excel-skjölum en þar mátu menn til verðmæta hluti á borð við það að halda sem flestum bæjum í byggð og gera fólki kleift, eins og kostur væri, að búa áfram og starfa þar sem það hefði alist upp eða kosið að búa. Það þarf að gera áframhaldandi breytingar á kerfinu til að ná þessum markmiðum betur en nú er, en það er hins vegar ekki verið að gera það með þeim tillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, (Forseti hringir.) heldur þvert á móti að færa það í öfuga átt.