140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:23]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nú ætla ég að freista þess eina ferðina enn að fá upplýsingar. Nú er kominn aðalforseti í stólinn, sjálfur forseti Alþingis. Mér hefur ekki tekist fyrr í kvöld að fá þá forseta sem setið hafa á forsetastól til að upplýsa hvenær hæstv. forseti hyggist slíta þessum fundi. Nú er klukkan að verða hálffjögur og búið er að gefa það út að þingfundur hefjist kl. 10.30 í fyrramálið. Hæstv. forseti sem situr í sömu þingskapanefnd og síðasti hæstv. forseti sem sat á forsetastól er mikill áhugamaður um bætt vinnubrögð á þinginu og því hlýt ég að spyrja, virðulegur forseti: Er það ekki sjálfsögð kurteisi að upplýsa, þótt ekki væri meira, hvenær hæstv. forseti hyggist slíta þessum fundi?