140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að verða þess heiðurs aðnjótandi að fá að flytja síðustu ræðuna í kvöld. Það mun ég gera með sérstakri ánægju.

Gallinn við annars ágætt form við andsvörin er sá að maður getur ekki tæmt þær röksemdir sem maður vill gjarnan koma á framfæri í einstökum atriðum. Ég ræddi aðeins áðan um þá þróun sem ég hygg að geti orðið ef þau frumvörp sem nú liggja fyrir Alþingi og við erum að ræða, annars vegar frumvarpið um fiskveiðistjórnarlögin og hins vegar um veiðiskattana, verða að lögum. Manni sýnist blasa við að áhrifin geti orðið heilmikil og stuðlað að meiri samþjöppun í útgerð en við höfum séð áður. Út af fyrir sig geta menn fært einhver efnahagsleg rök fyrir því að það sé skynsamlegt og það gerðu þeir gömlu sem töluðu fyrir veiðisköttum í gamla daga. Þeir veigruðu sér ekkert við því að færa þau rök enda var það eiginlega grundvöllur hugsunarinnar á bak við veiðiskattana.

Það sem er hins vegar augljóst í þessu sambandi er það að eins og frumvarpið um veiðiskattinn er sett fram munu áhrifin verða mest á einyrkjaútgerðir, útgerðir sem ekki eru tengdar fiskvinnslu, a.m.k. ekki með neinum eignatengslum. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að fundin sé einhver auðlindarenta af starfsemi fiskvinnslunnar. Ég veit vel að það sem er verið að reyna að ná utan um í því sambandi er verðlagning milli útgerðar og fiskvinnslu, en eins og þeir sérfræðingar sem hafa skoðað þessi mál, eins og Ragnar Árnason og sérfræðingar atvinnuveganefndar, hafa bent er þetta auðvitað ekki renta í þeim skilningi hugtaksins sem við þekkjum þegar verið er að tala um auðlindarentu almennt. Aukin arðsemi í fiskvinnslu getur stafað af mjög mörgu öðru en því að nýta auðlindir eins og við ræðum um það. Þar getur verið aukin tækni, vöruþróun, markaðsstarf og þess háttar og síðan mannauðurinn sem er til staðar í þessum fyrirtækjum og það skapar í raun þá rentu eða þann arð sem í fiskvinnslunni er. Eins og allir vita eru það eingöngu útgerðarfyrirtækin sem greiða auðlindaskattinn þegar upp er staðið og þá blasir við hverjum manni og þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um það að áhrifin verða miklu sterkari á þær útgerðir sem ekki eru með fiskvinnslu til að bera þann hluta kostnaðarins sem kemur fram vegna þess að verið er að skattleggja fiskvinnsluna og breyta síðan þeirri skattlagningu yfir í skattlagningu á útgerð.

Í þessu sambandi vek ég athygli á að fjölmargir aðilar sem láta sig þetta mál sérstaklega varða hafa tjáð sig um þetta. Í gær fengum við þingmenn til dæmis blaðamannafundarboð frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda sem hafa svo sem ekki deilt mínum skoðunum í fiskveiðistjórnarmálum. Þau hafa ýmislegt við þessi frumvörp að athuga og eitt af því er að þau gera sér grein fyrir því að sú þróun sem ég var að lýsa mun meðal annars hafa það í för með sér að framboð af fiski inn á fiskmarkaði kann að dragast saman. Ef einyrkjaútgerðir skipa sem ekki eru tengdar fiskvinnslu veikjast mun það auðvitað hafa áhrif á framboð inn á fiskmarkaðina. Það er í sjálfu sér mjög neikvæð þróun og þetta er eitt af því sem þessi samtök eru að vekja athygli á.

Ég vek líka athygli á því að Reiknistofa fiskmarkaða, sem er heildarsamtök fiskmarkaðanna í landinu, sendi atvinnuveganefnd álit sitt og þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Um íslenska fiskmarkaði fóru á árinu 2011 91 þús. tonn af bolfiski, að verðmæti rúmir 26 milljarðar kr. Í því ljósi er í hæsta máta furðulegt að almennt lætur frumvarpið sig ekkert varða starfsemi íslenskra fiskmarkaða.“

Hér eru auðvitað stór orð sögð en þau koma frá þeim sem gleggst ættu að vita, þ.e. frá fiskmörkuðunum sjálfum, sem komast sem sagt að þeirri niðurstöðu að þau frumvörp sem við erum með í höndunum muni skaða íslenska fiskmarkaði og að algert tómlæti ríki af hendi höfunda þessara frumvarpa í garð fiskmarkaðanna. Þetta eru mjög alvarlegir hlutir. Fiskmarkaðirnir hafa byggst upp yfir lengri tíma og hafa skilað miklum árangri. Ég er að vísu ekki talsmaður þess að allur fiskur eigi að fara um fiskmarkaði. Ég er þeirrar skoðunar að fiskviðskipti eigi að geta farið fram með frjálsum hætti þar sem útgerðarmaðurinn geti ráðstafað sínum afla og fiskverkandinn keypt hann ýmist í gegnum fiskmarkað eða í beinum viðskiptum eða hvernig sem það allt saman er. Aðalatriðið er að hér kveða sem sagt fiskmarkaðirnir upp úr um það að þessi áhrif verði eins og ég var að rekja.

Við ræddum aðeins bæði í gær og í dag um áhrifin af þessum frumvörpum á kjör sjómanna og landverkafólks. Það hefur komið fram í álitum fjölmargra að það sé augljóst að verði þessi frumvörp að lögum í þeirri mynd sem við höfum þau í dag munu þau sannarlega hafa áhrif á kjör fiskverkafólks og sjómanna. Það blasir við þegar annars vegar eru lagðar til ýmsar breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni sem er til óhagræðis og hins vegar þegar lagðar eru fram í þessu frumvarpi sem við ræðum núna í kvöld tillögur um að stórauka gjaldtökuna í greininni mun það hafa áhrif. Ég vitnaði til allra samtaka sjómanna sem komu fyrir atvinnuveganefnd og sögðu okkur að ef þessi frumvörp yrðu samþykkt mundi það ógna sjálfu hlutaskiptakerfi sjómanna. Það yrðu engin smátíðindi ef við breyttum í grundvallaratriðum frá því hlutaskiptakerfi þar sem sjómaðurinn nýtur þess þegar vel gengur og ber auðvitað sinn skaða ef illa gengur. Menn hafa talið hlutaskiptakerfið skynsamlegt í fiskveiðum og mig rekur ekki minni til þess að það hafi verið nein krafa um það, hvorki frá sjómönnum né útvegsmönnum, að leggja af hlutaskiptakerfið og taka upp svipað launakerfi og við landkrabbarnir búum við, t.d. við sem störfum á Alþingi eða hvar sem er annars staðar. Menn hafa talið hlutaskiptakerfið virka betur þegar kemur að sjómennskunni og það hefur reynslan kennt mönnum.

Við þurfum í sjálfu sér ekkert að deila um þetta mál, við höfum einfaldlega reynsluna. Hvað gerist þegar kostnaður stóreykst einhverra hluta vegna í útgerðinni? Við þekkjum dæmin frá því þegar olían hækkaði. Við þekkjum dæmi sem hafa verið nefnd um það þegar framsalið hófst og menn fóru að kaupa kvóta. Í öllum tilvikum reyndi útgerðin eftir megni að varpa þessum kostnaði einhvern veginn af sér, m.a. yfir á sjómenn. Varðandi olíuna vitum við að gerð var breyting. Þó að ég sé aðeins farinn að ryðga í þessum skiptakjörum núna man ég það vel að á sínum tíma var gerð sú breyting að það var dregin frá ákveðin prósenta áður en kom til skipta sem meðal annars átti að taka tillit til olíuverðsins. Þróun olíuverðsins hafði síðan bein áhrif á skiptakjörin. Sama var raunar um kvótakaupin. Þá var tekist á um þetta og niðurstaðan varð sú að annars vegar var sett inn í kjarasamninga bann við því að menn gætu látið sjómenn taka þátt í kvótakaupum og síðan var það sett í lög.

Það sem ég er einfaldlega að segja er að það er mat sjómannasamtakanna sjálfra að það muni hafa áhrif á kjör sjómanna þegar auknum kostnaði verður velt yfir á útgerðina og óhagræðið aukið í greininni. Í öðru lagi liggur fyrir að þeir fræðimenn sem hafa skoðað þessi mál hafa komist að sömu niðurstöðu, til að mynda nefna þeir fræðimenn sem unnu fyrir atvinnuveganefnd það alveg sérstaklega í sinni umsögn að lengri tíma áhrifin á laun sjómanna hljóti að verða neikvæð. Í þriðja lagi segir sagan okkur einfaldlega að þannig muni þetta verða. Þess vegna tel ég ákveðna þversögn í því fólgna að þetta frumvarp hafi þann tilgang að færa arðinn til þjóðarinnar frá útgerðarmönnunum. Ég held að það væri miklu nærtækara að við reyndum að leita leiða til að sá arður sem menn eru að tala um, bætt staða sjávarútvegsins, ætti þá fremur að leiða til þess að þeir sem starfa innan greinarinnar, t.d. landverkafólk, fengi notið þess í einhverjum mæli með bættum launakjörum. Það fyndist mér verðugt viðfangsefni. Ég veit að það er ekki einfalt mál í því kerfi sem við höfum í dag vegna þess að það er ákveðin misskipting innan greinarinnar en þetta teldi ég miklu nærtækari leið til að koma arðinum til þjóðarinnar, þ.e. með því að hækka laun þess starfsfólks sem vinnur í sjávarútveginum.