140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég bað sérstaklega um andsvar við ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar í kjölfar þess að hv. þm. Björn Valur Gíslason bað um að veita andsvar við ræðunni. Ástæðan má öllum vera ljós. Ég hugðist hlusta eftir því og það grannt hvort hv. þingmaður mundi láta svo lítið að svara andsvari frá hv. þm. Birni Val Gíslasyni því að hv. þingmaður er fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. Hann er reyndar af víðfrægri útgerðarfjölskyldu fyrir vestan og væntanlega með sjómannsblóð í æðum. Hann telst því hafa nokkra reynslu og víðtæka þekkingu á málaflokknum og því sem við erum að tala um. Hann tekur þess vegna gjarnan til máls og ræðir sjávarútvegsmál af þeim burðum sem ég hef hér lýst.

Ég hef auðvitað ekki komist hjá því að sjá það að hv. þingmaður virðist, frú forseti, ekki vilja láta taka sig alvarlega í þingsal. Ég ætlaði því að hlusta eftir hvort hann hefði skipt um ham og mundi láta svo lítið að svara andsvari frá hv. þm. Birni Val Gíslasyni. En vegna mistaka sem forseti hefur sagst hafa gert varðandi röð andsvara verður ekki af því að ég geti veitt andsvar á þeim grunni en ég vil vekja athygli á því að hv. þingmaður hefur haldið fimm ræður í samtals einn og hálfan tíma (Forseti hringir.) og allmörg andsvör og ég hlakka til að heyra svör hans við andsvörum hér á eftir.