140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég reiknaði ekki með því að komast hingað í andsvör en virði það að hér hafa verið gerð mistök hvað það varðar þrátt fyrir hávær mótmæli stjórnarandstöðunnar úr salnum við að ég fari hingað upp.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem situr með mér í atvinnuveganefnd og hefur unnið með mér og öðrum fulltrúum atvinnuveganefndar að breytingartillögum í þessu máli, sérstaklega út í eina tillögu sem snýr að ákveðinni heimild eða möguleika á að draga frá veiðigjaldi hluta af vaxtakostnaði vegna kaupa á aflaheimildum. Þetta ákvæði hefur verið gagnrýnt talsvert af hálfu stjórnarandstæðinga. Talað hefur verið um að þarna sé verið að verðlauna skussana, hvetja til skulda o.s.frv. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til þessa ákvæðis, hvort hann sé því fylgjandi, hvort hann vilji fá þetta í burtu eða telji réttlætanlegt að taka tillit til skulda af þessum toga til frádráttar á veiðigjaldi.

Ég geri mér auðvitað grein fyrir því eins og fram kom í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur áðan að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er virkur þátttakandi í þeirri pólitísku refsiaðgerð sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur skipulagt gegn mér á þingi og lagt þeim eineltistilburðum lið. Ég ætlast ekki til þess að hann muni kasta af sér þeim hlekkjum hér og nú en ég ætla að láta spurninguna vaka því ég vonast til þess að þingmaðurinn muni ná áttum og taka þátt í þessari umræðu eins og hann hefur gert hingað til.