140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:35]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það má taka undir það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði, það er ekki björguleg staða að standa hér sjötta daginn í röð og ræða þetta mál þó að það þarfnist svo sannarlega umræðu og margar ágætar og efnislega fínar ræður hafi verið haldnar. Það má færa rök fyrir því að málið sé að verða nokkuð vel ígrundað og það hefur komið vel fram í umræðunni, frú forseti, að ekki ber mikið á milli.

Í prinsippinu er stuðningur við þetta mál. Það er stuðningur við að innheimt sé veiðigjald af nýtingu á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Fyrri ríkisstjórn tók þetta veiðigjald upp. Nú hefur gjaldið verið hækkað. Það er deilt um forsendurnar og um það hvað gjaldið eigi að vera hátt, en það er hins vegar engin lausn að taka málið af dagskrá og hleypa öðrum fram fyrir. Það leysir ekki málið. Deilan stendur eftir um það hvernig við eigum að lenda því og á hvaða forsendum við eigum að byggja. Þess vegna er eina leiðin til lausnar að stjórnarandstaðan gangi fram af sanngirni í samningum sínum við meiri hlutann um það hvernig eigi að lenda málinu. Það er það sem málið snýst um. Það er engin lausn að taka það af dagskrá. Við þurfum að finna leiðina að því (Forseti hringir.) og ná samstöðu um á hvaða forsendum við eigum að byggja þetta mál.