140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:39]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það megi fullyrða að það er ágætur samhljómur meðal þingmanna um að koma þessu máli í skynsamlegri farveg. Vandinn er sá hvernig málið bar að til þingsins, hversu illa það var unnið og illa undirbúið og það hefur verið staðfest af öllum þeim sem hafa fjallað um málið að upphaflegur búningur frumvarpsins var þannig að það hefði sett sjávarútveginn á Íslandi í fullkomið uppnám og voða og byggðirnar hringinn í kringum landið sömuleiðis. Það er ekkert skrýtið þótt við þingmenn tökum tíma í að ræða þetta mál, mál sem barst hingað svo illa undirbúið. Það er skylda okkar að ræða það í hörgul til að koma í veg fyrir að gerð verði slík mistök. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum lagt til að gert verði hlé á umræðunni og málið fari til nefndar. Þær tillögur sem þar hafa komið fram verði sendar til umsagnar sérfræðinga í háskólasamfélaginu og til þeirra sem gerst þekkja til í sjávarútvegi. (Forseti hringir.) Þær komi til baka og við klárum síðan þessa umræðu og reynum að vinna þessa vinnu á vandvirkan hátt eins og málið á skilið.