140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að ítreka þá spurningu sem hv. þm. Jón Gunnarsson beindi til frú forseta um það hversu lengi þingfundur eigi að standa í dag. Fyrir mörgum dögum síðan gerði ég ráðstafanir um að fara austur á land í dag og vera viðstaddur stækkun álvers Alcoa á Reyðarfirði sem mun fjölga störfum þar um tugi og veitir svo sannarlega ekki af því.

Nú er það svo að mér ber skylda sem þingmaður að vera viðstaddur þingfund og ég er að reyna að átta mig á því hvenær þingfundi mun ljúka og hvort mér gefist tóm til þess að fljúga austur vegna þess að ég hafði gert ráðstafanir sem þingmaður til að verða viðstaddur á þessum gleðilega degi. Síðustu þrjú ár í atvinnusögu Íslendinga hafa ekki beinlínis verið mjög gleðileg en þarna er ljós í myrkrinu sem var kveikt undir forustu framsóknarmanna og sjálfstæðismanna á sínum tíma. Það er eðlilegt að forseti svari okkur (Forseti hringir.) því hversu lengi við eigum að starfa hér í dag.