140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er að sjálfsögðu ósammála síendurteknum ummælum hv. þm. Illuga Gunnarssonar sem hefur hin verstu orð um allan þennan málatilbúnað, ég læt nægja að segja það einu sinni.

Síðan á mánudag höfum við reynt að ná einhverju samkomulagi við minni hlutann um að 2. umr. um þetta tiltekna stjórnarfrumvarp mætti ljúka og það færi til atvinnuveganefndar og yrði þar skoðað í samhengi við frumvarp um stjórn fiskveiða. Menn eru sammála um að æskilegt væri að farið yrði yfir þau saman. Síðan á mánudag höfum við reynt að gera stjórnarandstöðunni ýmis tilboð í þessum efnum. Það hefur komið fyrir ekkert og stjórnarandstaðan hefur talað hér í 70, 80 klukkustundir nú þegar við 2. umr. um þetta stjórnarfrumvarp og er þetta þó frumvarp sem ég held að allir átti sig á að þarf að fá afgreiðslu. Það tengist forsendum fjárlaga yfirstandandi árs, ríkisfjármálaáætlun næstu ára og það hefur ekki verið venjan að leggja stein í götu þess að til dæmis tekjuöflunarfrumvörp fjárlaga næðu fram að ganga. Þau eru afgreidd á ábyrgð meiri hluta og hann biður ekki neinn að bera pólitíska ábyrgð á því. (Forseti hringir.) Það er þingmeirihluti fyrir þessu máli en vandinn virðist vera sá að minni hlutinn vill ráða efnislegri niðurstöðu þess. Minni hlutinn sættir sig ekki við að vera minni hluti og vill ráða efnislegri niðurstöðu þess.