140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á þessari töf sem varð af óviðráðanlegum orsökum eins og allir sáu. Ég vildi bara árétta þau sjónarmið sem fram hafa komið, að við erum með öll þessi mál í mjög vandræðalegri stöðu og ég held að okkur sé það öllum ljóst að ljúka þarf þessu máli með einhverjum hætti og finna á því viðunandi lausn.

Ég met það svo sem mikils að gerðar hafi verið breytingar á því frumvarpi sem nú liggur fyrir varðandi veiðigjöldin. Ég tel að ýmsar þær breytingar séu sannarlega til bóta. Það er hins vegar alveg ljóst mál að eins og málin hafa þróast og við höfum séð í umræðunum sem staðið hafa um allnokkurt skeið er ekki komin sú niðurstaða sem leitt getur til samkomulags í þessum efnum. Þess vegna væri skynsamlegast allra hluta vegna að gera hlé núna á umræðunni sem er að hefjast á þessum laugardagsmorgni og reyna að freista þess að finna þá lausn sem dugar til þess að þessi mál geti gengið áfram í einhverri bærilegri sátt svo við verði unað og atvinnugreinin sjávarútvegur geti borið þau gjöld sem sérstaklega er ætlunin að setja byrðar á.