140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi dreifingu þessa gjalds, ef á verður lagt, þá er það svo að ein af þeim grundvallarforsendum sem gefin er er að hér sé um að ræða þjóðareign. Ef þetta gjald byggir á því gefur augaleið að ekki er hægt að mismuna íbúum landsins hvað varðar dreifingu gjaldsins. Það gengur einfaldlega ekki upp að halda því fram að gjaldtaka á grundvelli þjóðareignar geti orðið þannig að íbúar til dæmis í Hveragerði, á Egilsstöðum, á Selfossi eða íbúar sveitanna eigi þá enga hlutdeild að fá í gjaldinu eða minni en aðrir. Annaðhvort er þetta þjóðareign eða ekki. Ef um er að ræða bara skýra ríkiseign og ríkið ætli sér að kasta eignarhaldi sínu á þetta allt saman er umræðan auðvitað önnur. En þá vil ég benda hv. þingmanni á að löng saga er fyrir því að miklu meiri tilhneiging er til þess að eyða fjármunum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu frekar en úti á landi og um það hefur hv. þingmaður flutt margar ágætar, efnismiklar og innihaldsríkar ræður.

Hvað varðar þann útifund sem haldinn var verð ég að segja eins og er, virðulegi forseti, að mér fannst ömurlegt á að hlýða það baul og það pú sem staðið var fyrir til að reyna að drekkja málflutningi ræðumanna. Ég man ekki eftir að boðað hafi verið sérstaklega til þess að menn mættu á pólitískan mótmælafund til þess að koma í veg fyrir að skoðanir manna heyrðust. Það er sérstakt. Ég tel að þeir sem hafi slíkan málstað að verja og þurfi að grípa til slíkra bragða séu í raun rökþrota. Þess vegna fannst mér svolítið sérkennilegt að heyra suma hv. þingmenn stjórnarliðsins telja að í þeirri tegund af málflutningi hafi verið fólginn alveg sérstakur stuðningur við ríkisstjórnina.