140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:20]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hressilega og skemmtilega ræðu. Ég er þó ekki alveg sammála söguskoðun hans um bakgrunn og uppruna auðlindagjaldsins sem slíks. Þótt máttur Alþýðuflokksins í íslenskum stjórnmálum sé mikill og ýmislegt ágætt liggi eftir hann byggir auðlindagjaldið, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn settu á fyrir áratug, á mikilli skýrslu auðlindanefndarinnar á sínum tíma eftir margra ára einarða baráttu fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins en ekki núverandi, fyrir upptöku auðlindagjalds og veiðigjalds. Pólitíska prinsippið sem liggur á bak við þetta er náttúrlega alveg skýrt og afdráttarlaust og um það hefur skapast þverpólitísk samstaða á þessum árum sem er sú að greitt sé gjald fyrir nýtingu á öllum auðlindum í eigu hins opinbera hvort sem það eru fallvötn, jarðhiti eða sjávarauðlindir. Það er hugmyndafræðin á bak við þetta. Við deilum í sjálfu sér ekki um hana. Þó að Alþýðuflokknum sé mikið eignað og hann hafi barist fyrir þessu með ritstjóra Morgunblaðsins og ýmsum öðrum þá liggur ákvörðun Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma um upptöku veiðigjalds á grundvelli auðlindaskýrslunnar. Hana þekkja margir vel og hún er vel unnið og merkilegt plagg sem skiptir miklu máli í allri umræðu um auðlindanýtingu og sjávarútveg á Íslandi.

Við erum hins vegar að ræða um forsendurnar og þingmaðurinn nefndi það að útvegurinn þyrfti að taka frá af launum sjómanna og ýmsum frádráttarliðum til að eiga fyrir mögru árunum. En það er einmitt ekki svo því að forsendur fyrir gjaldtökunni eru þær að hún sé afkomutengd. Þess vegna vildi ég spyrja þingmanninn beint út: Gefum okkur að við höldum okkur við það sem Sjálfstæðisflokkurinn tók upp fyrir tíu árum sem er auðlindagjald, gjald á rentu af nýtingu auðlindarinnar. Hvaða gjald telur þingmaðurinn vera hóflegt þannig að útgerðin geti vel við unað og staðið undir án þess að bogna eða bresti í?