140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:24]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki tómara mál en svo um að tala að þetta er sjöundi dagur umræðunnar. En ég held að það hafi verið mistök að ræða þessi mál ekki saman. Þau snertast og það er erfitt að klára annað án hins. Þess vegna er mikilvægt að ljúka 2. umr. og fara aftur með málið inn í nefnd og vinna það með hinu málinu og út frá því.

Ég vil halda einu sérstaklega til haga. Það hefur verið tekið verulegt tillit til sjónarmiða sem fram hafa komið í umsagnarferlinu og á þingi og gjaldið hefur lækkað mjög verulega frá fyrstu hugmyndum, um 7–8 milljarða ef allt er talið. Ég vil líka taka undir með þingmanninum að það skiptir mjög miklu máli að við höfum sannfæringu fyrir því að um sé að ræða hóflegt gjald, sanngjarnt gjald en ekki óhóflegt og ósanngjarnt sem rýri stöðu greinarinnar. Þess vegna taldi ég að það væri sátt um að sérstaka gjaldið, ekki hið lága almenna gjald, væri tengt við afkomu greinarinnar. Ég gat ekki heyrt annað en þingmaðurinn væri í raun (Forseti hringir.) að fagna því mjög þótt hann teldi að forsendurnar væru kannski enn þá eitthvað skakkar. Ég held að við séum að nálgast þar land um það hvaða forsendur eru réttar fyrir gjaldtöku.