140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því í kjölfar þeirrar umræðu sem spratt hér áðan og beindist að sögunni um auðlindanefndina, sögu sem ég hef m.a. komið að í fyrri ræðum mínum, að undirstrika hvaða aðferðafræði var beitt þá. Það voru uppi háværar raddir, ekki síst á meðal félaga í gamla Alþýðuflokknum heitnum, og kannski góða líka, og hjá ýmsum einstaklingum í samfélaginu sem höfðu margt til síns máls varðandi það hvernig ætti að þróa gjaldtöku af sjávarútveginum. Við þessu var brugðist af þáverandi ríkisstjórn og sett niður hin svokallaða auðlindanefnd með fulltrúum úr öllum flokkum, hagsmunaaðilum o.s.frv. Mér finnst það lýsa mjög vel því hvernig menn reyndu að nálgast efnið, menn reyndu að nálgast það með það að markmiði að ná sátt um þessa mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Mér finnst það síðan umhugsunarefni hvernig forsætisráðherra hefur nálgast þetta, hún hefur ekki sýnt sig mikið í þingsal eða tekið til máls í þessu máli nema undir liðnum Störfum þingsins með því að hnýta að vissu leyti í stjórnarandstöðuna og ýmsa fleiri eins og útgerðarmenn, sjómenn og fleiri í tengslum við þetta mál.

Mér finnst umhugsunarefni að sjá hversu ólík nálgunin er og hversu ólík vinnubrögðin eru til að ná raunverulegri sátt í þessu máli. Af hverju segi ég það? Jú, því að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær að stjórnvöld ætluðu ekki að ganga lengra til að mæta sjónarmiðum útgerðarmanna. Alrangt væri að ekki hefði þegar verið komið til móts við sjónarmið þeirra. Mér finnst þetta umhugsunarefni af því að við höfum verið að ræða á umliðnum dögum ákveðna þræði, ákveðnar leiðir sem augljóslega er hægt að tala sig niður á niðurstöðu um. Ég er sannfærð um það. Ég hef rætt um það að ég er bjartsýn á að menn geti náð ákveðinni niðurstöðu í þessu máli. Þá vil ég ekki síst benda á, talandi um útgerðarmenn sem hæstv. forsætisráðherra vill engan veginn hlusta á, þann fund sem HB Grandi í Reykjavík hélt í fyrradag þar sem kom alveg skýrt fram í máli forstjóra þess fyrirtækis að hægt væri að ná samkomulagi sem hægt væri að byggja á til lengri tíma litið. En það er augljóslega ekki efst í huga forsætisráðherra. Þess vegna finnst mér hrópandi að sjá hversu ólík aðferðafræði nútímans er gagnvart því sem gerðist á árinu 2000 sem leiddi til þeirrar niðurstöðu sem varð í auðlindanefndinni. Í henni stóð alveg skýrt, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað rækilega um fiskveiðar Íslendinga og telur að byggja eigi stjórn þeirra áfram á núverandi grunni þótt hún telji ýmsar breytingar á núgildandi reglum í átt að auknu frjálsræði í meðferð og handhöfn aflaheimilda æskilegar. Nefndin er þeirrar skoðunar að greiðsla fyrir afnot af auðlindinni geti stuðlað að því að sátt geti tekist um stjórn fiskveiða, enda verði sú gjaldtaka ákveðin með hliðsjón af afkomuskilyrðum og uppbyggingu sjávarútvegsins og þeirri óvissu sem hann á við að búa, m.a. vegna ófyrirsjáanlegra breytinga á aflabrögðum og vegna alþjóðlegrar samkeppni,“ — við megum ekki gleyma því í dag — „þar á meðal þau skilyrði sem sjávarútvegur annarra þjóða býr við. Til viðbótar slíkum rökum fyrir því að fara með gát í þessum efnum vísar nefndin til þess að í þingsályktun þeirri sem hún starfar eftir er beinlínis tekið fram „að um verði að ræða hóflegt gjald““.

Þarna segir nákvæmlega hóflegt gjald, gjaldið má ekki kreppa svo að sjávarútveginum að hann geti ekki staðið áfram í þeim fjárfestingum sem eru nauðsynlegar fyrir framþróun sjávarútvegsins en ekki síður til að auka arðbærni hans og hagkvæmni til lengri tíma litið.

Nokkrar staðreyndir. Það eru greidd veiðigjöld. Staðreyndin er sú að tillögur ríkisstjórnarflokkanna til að byrja með lutu að því að hækka veiðigjöldin úr um það bil 4,5 milljörðum upp í 25 milljarða. Síðan var komið til móts við ákveðin sjónarmið, sem var ágætt. Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn lagt áherslu á að það verði gert hlé á þessari umræðu til þess að fá álit hagsmunaaðila á þeim breytingum sem nefndin samþykkti. (Gripið fram í.) Til þess hafa stjórnarliðar ekki fengist og þau skilaboð fáum við ekki hér á þingi frá forsætisráðherra heldur fáum við þau nú sem endranær í gegnum fjölmiðla í þessu mikilvæga máli. Þetta hefur viðgengist áður í öðrum stórum málum að stjórnarþingmenn og stjórnarandstaðan fá viðhorf og viðbrögð forsætisráðherra við brýnum málum í gegnum fjölmiðla í staðinn fyrir að forsætisráðherra mæti hingað í þingsal og tali úr ræðustól fyrir sjónarmiðum sínum og virði þar með löggjafarvaldið og lýðræðið.

Ég vil líka draga fram þær staðreyndir að enginn umsagnaraðila hefur mælt með þessu. (Gripið fram í.) Já, það er rétt, fyrir utan samfylkingarfélaga á Suðurlandi. Ég gæti hafið langa þulu og gæti svo sem byrjað hana, með leyfi forseta. Umsagnir koma meðal annars frá sveitarfélaginu Árborg, Landssambandi smábátaeigenda, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Félagi skipstjórnarmanna, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Ragnari Árnasyni, Akureyrarkaupstað, Drífandi stéttarfélagi, Sjómannasambandi Íslands, sveitarfélaginu Hornafirði, sveitarfélaginu Skagafirði, sveitarfélaginu Ölfusi, Verkalýðsfélagi Akraness, Grindavíkurbæ, Seyðisfjarðarkaupstað, Starfsgreinasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Bolungarvíkurkaupstað, Byggðastofnun, bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ — það er einmitt þessi eina jákvæða umsögn — Dalvíkurbyggð, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjarðabyggð, Grýtubakkahreppi, Hafrannsóknastofnun, Hagstofu Íslands, Helga Áss Grétarssyni, Landsbankanum hf., Landssambandi smábátaeigenda, Langanesbyggð, Lúðvík Emil Kaaber, Norðurþingi, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Samtökum íslenskra fiskimanna, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Snæfellsbæ, Stykkishólmsbæ, Landssamtökum landeigenda á Íslandi, Arion banka, Tryggingamiðstöðinni, Samtökum fiskvinnslustöðva, Vinnslustöðinni, Landhelgisgæslu Íslands, ríkisskattstjóra, Vestmannaeyjabæ, Tálknafjarðarhreppi, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar — ég held að ég haldi ekki áfram þessari þulu því hún er enn lengri. Hvað eiga allir þessir sameiginlegt, fyrir utan bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ? Allir leggja áherslu á að leggja málið til hliðar. Sumir eru mjög afgerandi í sinni umsögn eins og t.d. Félag skipstjórnarmanna og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands en í henni segir, með leyfi forseta:

„Nú hampar þessi sami ráðherra“ — þ.e. núverandi sjávarútvegsráðherra — „frumvörpum sem við blasir að leiða muni til grafalvarlegrar stöðu þar sem bráðnausynleg endurnýjun flotans er slegin út af borðinu og viðhaldi allt of gamals flota verður haldið í algeru lágmarki. Í stað aukins öryggis og betri aðbúnaðar sjómanna muni menn sjá fram á hið gagnstæða, með margvíslegum neikvæðum afleiðingum.

Verði þessi frumvörp, sem eru unnin án alls samráðs við atvinnugreinina, að lögum, munu þau viðhalda og jafnvel auka ósætti innan greinarinnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“

Það er rétt að taka það fram að þetta er ekki eitthvert plagg frá sjálfstæðismönnum. Þetta er umsögn og ályktun Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Félags skipstjórnarmanna. Í henni segir áfram:

„Með skerðingum aflaheimilda munu kjör sjómanna versna verulega og leigubrask sem stjórnvöld ætla nú að takast á hendur mun aukast. Til viðbótar við þá skerðingu sem stjórnvöld stóðu fyrir með afnámi sjómannaafsláttar er þetta fráleitt framferði gagnvart einni starfsstétt og sýnir í hnotskurn hvaða hug ríkjandi stjórnvöld bera til þeirrar starfsgreinar sem mestu hefur skilað við að draga vagn þjóðarbúskaparins við að skapa útflutningsverðmæti á erfiðum tímum undanfarin missiri.“

Þetta er dæmi um eina umsögn. Ég er ekki að segja að allar hafi verið svona harðorðar en margar voru það. En allar segja: Leggjum þetta til hliðar. Reynum að finna betri niðurstöðu af því að það er hægt, eins og ég vil undirstrika enn og aftur. Það er hægt og við getum leyst þetta með því að málið verði tekið aftur inn til nefndar, hlé gert á þessari umræðu og við getum farið að afgreiða önnur mikilvægari mál ríkisstjórnarinnar.

Allt ber að sama brunni. Við erum að ræða mál sem hefur gríðarlega efnahagslega þýðingu fyrir Íslendinga, hefur mikil áhrif á landsbyggðina og eins og ég hef margítrekað líka, mikil áhrif á ýmis fyrirtæki, sprotafyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem hafa haft hag af því að sjávarútvegsfyrirtæki hafa fjárfest í svonefndum sjávarklasa, í öðrum fyrirtækjum sem tengjast sjávarútveginum og byggt þar upp þekkingu. Við gumum af því á stórum dögum eins og 17. júní og öðrum merkilegum dögum í lífi þjóðarinnar að við eigum vel menntaða þjóð, þjóð sem hefur eflt vísindastarfsemi sína og rannsóknir. Hluti af því, virðulegi forseti, er að við höfum fengið fjárfestingar inn í vísindin og rannsóknir af hálfu sjávarútvegs og stuðlað þar með að þróun og eflingu mikilvægra fyrirtækja, fyrirtækja sem hafa gríðarlega þýðingu til lengri tíma fyrir íslenskt samfélag og hafa aukið möguleika unga fólksins okkar sem er að útskrifast úr háskólum á að afla sér fjölbreyttra starfa og þekkingar.