140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að fá líka tvær mínútur í seinna andsvari til þess að fara yfir þetta mikilvæga mál með hv. þingmanni.

Ég er með tvær spurningar. Önnur varðar mat hv. þingmanns á áhrifum þess ef skattlagning á útgerðina verður óhófleg og þá sérstaklega með tilliti til launa fiskvinnslufólks og sjómanna. Má ekki gera ráð fyrir því að verði of hart fram gengið í því að leggja gjald á sjávarútveginn að það muni með einhverjum hætti bitna á sjómönnum og landverkafólki og jafnvel á umsvifum sjávarútvegsfyrirtækja sem skipta við mörg önnur fyrirtæki í íslensku atvinnulífi, svo sem nýsköpunarfyrirtæki og bókhaldsstofur? Það væri áhugavert að heyra álit hv. þingmanns á því.

Í annan stað vil ég spyrja um forsendurnar fyrir þessu. Í rökstuðningi með veiðigjaldi er gert ráð fyrir því að gengi íslensku krónunnar muni bara í fyrirsjáanlegri framtíð vera eins og það er í dag. Hvers lags framtíðarsýn er það? Ef við gefum okkur að gengið muni styrkjast munu tekjur útgerðarinnar náttúrlega minnka og auðvitað vonumst við til þess að gengi krónunnar muni styrkjast á komandi árum. En hvers lags framtíðarsýn er það hjá stjórnvöldum að ætla það að krónan verði eins veik í framtíðinni og hún er í dag?