140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég tek undir að það er mikilvægt að tengja það sem við erum að tala um við raunveruleg dæmi og ég held að hlutir sem þingmaðurinn hafði mjög mikið um að segja séu til dæmis fjar- og dreifnámið sem gerði það að verkum að við sjáum ekki lengur auglýst eftir grunnskólakennurum á hverju einasta hausti í skólum hringinn í kringum landið. Þar er nú menntað fólk til staðar. Hið sama á við um fólk í heilbrigðisþjónustunni, sjúkraliða- og hjúkrunarfræðinámið hefur gjörbreytt þessari grunnþjónustu hringinn í kringum landið.

Það sem hefur hins vegar unnið gegn landsbyggðinni er þessi gríðarlega endurskipulagning sem var nauðsynleg í sjávarútveginum til að ná ákveðinni hagræðingu og hagkvæmni í sjávarútveginum. Þetta hefur haft mjög slæm áhrif á byggðirnar í kringum landið og það sama hefur í raun og veru gerst í landbúnaðinum, auk þess sem við höfum séð að smáiðnaðurinn sem var mjög sterkur víða, t.d. á Akureyri, hefur líka nánast horfið. Skýrsla Byggðastofnunar sem kom út í maí lýsir þessari stöðu nákvæmlega. Ef maður ber hana saman við umsagnalistann sem hv. þingmaður fór í gegnum sést að meginþorri þeirra sveitarfélaga mótmælir frumvarpinu sem fjallað er um í þessari skýrslu. Þetta eru brothættustu sveitarfélögin þar sem er 15% fólksfækkun, og í sumum tilvikum er verið að tala um 45%, og þau munu þurfa að borga þetta gjald. Það er ekkert, hvorki í þessu frumvarpi né hinu, eins og kemur fram í umsögn Byggðastofnunar sem tryggir að þessir fjármunir skili sér til baka, tryggir að það verði stutt við opinbera þjónustu, stutt við þessa nýsköpun sem og ný störf (Forseti hringir.) og framþróun í greininni sjálfri.