140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn Jón Bjarnason og Atli Gíslason færa prósenturnar til. Ég talaði sérstaklega um 28. gr. að 50% færu til ríkisins, 30% færu til sveitarfélaga og landshlutasamtaka og lá ákveðin formúla þar að baki sem ég held að hafi byggst á ráðleggingum Vífils Karlssonar sem er einn helsti sérfræðingurinn í svæðahagfræði á Íslandi og síðan var gert ráð fyrir að 20% færu í nýsköpun og þróun. Ég tel að það sé mjög brýnt að styðja við nýsköpun og þróun í sjávarútveginum, að skapa ný og áhugaverð og spennandi störf og efla þá matvælastóriðju sem íslenskur sjávarútvegur er.

Það er alveg á hreinu að við framsóknarmenn höfum talað fyrir veiðigjaldi. Við erum algerlega sammála ég og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hvað það varðar að þetta er sameign þjóðarinnar og við þurfum að dreifa betur þeirri rentu sem verður til í greininni. (Forseti hringir.)

Ég hef hins vegar talað fyrir því líka að við getum gert það betur með því að tryggja að laun þeirra (Forseti hringir.) sem starfa í greininni hækki og þar með skilar það sér (Forseti hringir.) til sjávarbyggðanna og til ríkisins.