140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hefur þótt áhugavert að hlusta á ræður hv. þm. Illuga Gunnarssonar. Ég hef ekki endilega verið fyllilega sammála öllu sem þar hefur komið fram en það hefur verið áhugavert og skemmtilegt að hlusta á rökfærslu hans.

Það sem ég held að vinni gegn eigendum sjávarútvegsfyrirtækjanna í augnablikinu þegar þeir færa rök fyrir því að þeir muni ekki fjárfesta jafnmikið og áður er sú staðreynd að þrátt fyrir að veiðigjaldið hafi verið mun lægra hingað til hefur ekkert verið fjárfest sérstaklega mikið í greininni. Fjárfestingarnar hafa að miklu leyti falist í að viðhalda aflahlutdeildinni og jafnvel í tilfelli eins öflugasta fyrirtækis í Vestmannaeyjum er eignarhaldið þar mjög skuldsett. Þetta mundi leggjast mjög harkalega á það fyrirtæki einmitt vegna þess að þar voru menn að berjast fyrir því að halda aflaheimildunum í viðkomandi byggðarlagi. (Forseti hringir.) Nákvæmlega sömu rök komu fram í umsögn bæjarfulltrúa Bolungarvíkur, (Forseti hringir.) þar eru menn að skuldsetja sig til að geta haft aðgang að auðlindinni. Þetta þarf allt að skoða (Forseti hringir.) heildstætt.