140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hennar áðan sem var ágæt. Ef ég skil hv. þingmann rétt er megininntakið í hennar ræðu varðandi gjaldtökuna á landsbyggðina að verið sé að taka peninga sem þegar eru í umferð til að byggja upp innviði samfélaganna. Ég er ósammála því. Þeir peningar sem hér er um að ræða eru ekki í umferð til þess. Í það minnsta hef ég ekki orðið var við að fyrirtæki sérstaklega séu að byggja upp innviði samfélaganna, byggja skóla, leggja vegi, sjá um holræsin og rekstur bæjarfélagsins o.s.frv. Hefur hv. þingmaður einhverja hugmynd um að það sé ætlun fyrirtækja að gera slíkt héðan í frá, því að það hefur ekki verið gert hingað til? Telur hv. þingmaður að það sé hlutverk einkafyrirtækja, í þessu tilviki þá útgerða og þeirra sem greiða veiðigjald, að sjá um þennan hluta samfélagsþjónustunnar (Forseti hringir.) eða á það að vera opinbert hlutverk?