140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að sú tillaga sem hv. þingmaður studdi væntanlega á sínum tíma, sem kom fram í frumvarpi þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um skiptingu veiðigjaldsins, endurspegli nákvæmlega þá hugmyndafræði sem þingmaðurinn ræddi hér. Þar er talað um að helmingur fari til ríkisins í sameiginlegan sjóð, en til að draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem komið geta af þessari miklu skattlagningu og líka til að styðja við uppbyggingu og ný störf í greininni í þessari matvælastóriðju fari ákveðið hlutfall, raunar helmingur, í gegnum annars vegar landshlutasamtökin eða sveitarfélögin sjálf og hins vegar í AVS-sjóðinn, eins og mér skilst að þáverandi ráðherra hafi gert ráð fyrir.

Hvað varðar hina tillöguna sem hv. þingmaður ræddi má svo sem segja að það fyrirkomulag mundi að vissu leyti endurspegla vaxtabótakerfið hjá okkur þar sem við erum að reyna að koma til móts við þá sem skuldsettari eru (Forseti hringir.) og veikari fyrir. Mér þætti því áhugavert að skoða það.