140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[13:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sé komin í salinn og vonandi munum við geta átt skoðanaskipti í dag um þetta frumvarp sem við ræðum um veiðigjöld. Hins vegar spurði ég hæstv. fjármálaráðherra efnislega út í grunnforsendur frumvarpsins er snerta framtíðarrekstrarfyrirkomulag sjávarútvegsins, spurði hana mjög skýrra spurninga í morgun og nú hefur það komið í ljós, eins og hæstv. forseti nefndi, að hæstv. ráðherra er ekki við þessa umræðu. Það er til lítils að halda umræðunni áfram ef við sem tökum þátt í henni fáum ekki svör við grundvallarspurningum sem tengjast frumvarpinu. Ég tek þess vegna undir með félögum mínum að ég held að það sé ráð að fresta umræðunni þangað til hæstv. ráðherra getur komið hingað og verið viðstödd og svarað þeim fyrirspurnum sem við höfum margítrekað lagt fram í þessari umræðu.