140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki í neinu hvort skoðað hafi verið í ríkisstjórn eða ráðuneyti hvernig útfærslan á þessu sé, hvort ráðuneytið hafi áttað sig á því hvaða tekjuskerðing verði á tekjum sveitarfélaganna vegna þessa og hvort nauðsynlegt sé að bregðast við til að mynda með hækkun á greiðslum frá ríkisvaldinu í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ráðherra svaraði því heldur ekki hvort rætt hafi verið í ráðuneytinu hvernig samspil veiðigjaldsins við tekjuskattinn og útsvarið er háttað.

Ég get alveg tekið undir það að það er mismunandi afstaða til þess hvort menn eigi að hafa samráð við allt og alla. En hefði ekki verið eðlilegt að taka tillit til þess og hafa samráð við sveitarfélögin? Hefði ekki verið eðlilegt og skynsamlegt að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna, samtök sjómanna og samtök fiskvinnslufólks alveg eins og útgerðarinnar? Er öll útgerðin milljarðamæringar og er vont að vera milljarðamæringur? Er til félag milljarðamæringa sem er með 35 þúsund manns í vinnu? Sjávarklasinn er með um 35 þúsund manns í vinnu. Á ekki að hafa samráð við stærstu og öflugustu atvinnugrein landsins þegar menn ganga svona bratt til verks án þess að hafa ekki einu sinni hugmynd um, að því er virðist, nema ráðherra svari því í seinna andsvari, hvaða áhrif það getur haft á útsvarstekjur og skerðir möguleika sjávarbyggðanna. Það er alveg eins og þegar sú staða var uppi að krónan var allt of sterk og allir horfðu til þess að græða á hlutabréfum og bankastarfsemi, þá höfðu allar sjávarbyggðirnar það skítt, ekki bara fjölskyldurnar sem áttu fyrirtækin heldur allir þeir sem bjuggu í sjávarbyggðunum sem höfðu bæði beinan og óbeinan hag af gengi sjávarútvegsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)