140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Miklar athugasemdir hafa komið fram við það frumvarp sem við ræðum hér sem og það frumvarp sem við ræðum ekki og er enn í nefnd, þar á meðal frá sveitarfélögum, en hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála hefur ekki tekið til máls. Þetta varðar líka heilmikið fjármálin en hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki tekið til máls í allri umræðunni, hvorki 1. né 2. umr. Þetta varðar líka auðlindir þjóðarinnar, umhverfismál o.s.frv., en hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir hefur aldrei tekið til máls og hefur enga skoðun á málinu. (ÓN: Og ekki forsætisráðherra.) — Ég ætlaði að koma að því. Svo er það hæstv. forsætisráðherra sem er yfirmaður ríkisstjórnarinnar og keyrir þetta áfram og talar alls staðar annars staðar en á Alþingi. Mér finnst framkvæmdarvaldið sýna Alþingi lítilsvirðingu.