140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota tækifærið í upphafi máls míns og ítreka að það er auðvitað fráleitt að það sé valið úr hvaða þingmenn geta sótt mikilvæga viðburði á landsbyggðinni. Gleymum því ekki að hér er engin starfsáætlun í gildi, gleymum því ekki að menn eru búnir að gera sínar áætlanir. Gleymum því ekki að það var ekki fyrr en um ellefuleytið í gærkvöldi að fyrir lá að það yrði þingfundur í dag. Gleymum því ekki að heimamenn kalla alveg jafnmikið eftir viðveru þingmanna úr kjördæminu og þeir kalla eftir hæstv. ráðherrum. Ég er ansi hrædd um að hv. þm. Birkir Jón Jónsson þurfi að fara að útskýra fyrir sínu heimafólki af hverju hann tók, eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson orðaði það, þingið fram yfir heimahagsmuni og stóran atburð í kjördæminu. Ég treysti því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson geti gert það, vegna þess að þetta mál sem við ræðum hér er mjög mikilvægt.

Ég óskaði eftir því við hæstv. innanríkisráðherra að loknu andsvari hans, af því að ég var næst á mælendaskrá, að hann yrði viðstaddur vegna þess að þau orð sem hann hafði uppi í andsvari við hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson urðu til þess að ég vildi ræða aðeins um hæstv. ráðherra og orð hans. Hann tjáði mér að hann gæti ekki verið hér vegna þess að hann væri búinn að lofa sér annars staðar og ég geri ekki athugasemdir við það, við ræddum það. Ég sagði honum jafnframt að ég mundi engu að síður gera þessar athugasemdir vegna þess að nú hefði ég tækifæri til þess í ræðu minni. Hann gerði ekki athugasemdir við það.

Ég fór nefnilega í fyrri ræðu minni yfir orðfæri hæstv. ríkisstjórnar um þá atvinnugrein sem við ræðum hér og hvernig ríkisstjórnin talar til hennar og talar um okkur sem höfum aðrar skoðanir á þessu tiltekna máli en hæstv. ríkisstjórn. Ég fór yfir grein sem hæstv. innanríkisráðherra skrifaði í vefrit Vinstri grænna, Smuguna, sem heitir „Koma fram við þjóðina eins og snærisþjófa“. Ég ætla ekki að endurtaka þá ræðu mína vegna þess að ég hef ekki ótakmarkaðan tíma í þessari ræðu en vísa á fyrri ræðu mína. Ég vil ítreka það sem ég sagði að mér finnst algjörlega óboðlegt þegar stjórnvöld þessa lands, framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin, fara fram með þeim hætti að uppnefna heila atvinnugrein, eru með skæting í hennar garð og, eins og kemur fram í þessari grein hæstv. innanríkisráðherra, kalla okkur sem lýsum öðru sjónarmiði klíkugæslumenn í stjórnmálum. Það hljótum að vera við sem hann á við, og að við séum að berjast með stórútgerðinni, „enda hangir tilvera þeirra á sömu spýtu“, eins og segir í greininni.

Þetta eru aðdróttanir, frú forseti, sem ég kann ekki að meta. Það var við þennan málflutning hæstv. innanríkisráðherra sem ég vildi gera athugasemdir, en það var líka annað. Hæstv. ráðherra sagði að það væri algjörlega lífsnauðsynlegt að breyta þessu kerfi vegna þess að mikill meiri hluti þjóðarinnar kallaði eftir því í skoðanakönnunum. Ég spyr í fyrsta lagi: Hvaða breytingar vill þessi meinti meiri hluti fá fram? Hefur einhvern tíma verið spurt að því? Nei. Ég veit ekki til hvaða skoðanakannana hæstv. innanríkisráðherra er að vísa en ég er glöð að hann skuli ætla að taka mark á skoðanakönnunum vegna þess að ég vildi gjarnan í þessu samhengi nefna nýlegar skoðanakannanir sem ég vona að hæstv. innanríkisráðherra taki líka mark á.

Í síðasta þjóðarpúlsi kom til dæmis fram að Vinstri hreyfingin – grænt framboð mælist með minnsta fylgi síðan árið 2003, og svo það sé nefnt fyrir þingtíðindin er núna júní 2012. Minnsta fylgi síðan 2003. Samfylkingin, hinn ríkisstjórnarflokkurinn, mælist með þriðja minnsta fylgið sem hún hefur haft, tæp 18%. Sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna hefur aldrei mælst minna á þessari öld. Tökum endilega mark á skoðanakönnunum, virðulegur forseti.

Síðan er alltaf verið að tala um 18 ára valdatíð og óvinsælustu ríkisstjórn allra tíma og vísað í ríkisstjórn Geirs H. Haardes. Við skulum bera þetta saman. Í október, nóvember, desember árið 2008 og í janúar 2009 mældist ríkisstjórn Geirs H. Haardes lægst með 35% fylgi. Skoðum síðustu fjóra mánuði í lífi þessarar ríkisstjórnar. Þá mælist fylgi ríkisstjórnarinnar hvern mánuð undir 30%. Já, virðulegur forseti, ég ætla að vona að hæstv. innanríkisráðherra fari að taka mark á skoðanakönnunum eða fari að minnsta kosti að sýna þeirri atvinnugrein sem við ræðum hér tilhlýðilega virðingu.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem ég geri ráð fyrir að sé í húsi, hann hefur vikið úr salnum, sagði í upphafi kjörtímabilsins að þetta væri ekki tíminn fyrir hugmyndafræðilega landvinninga, nú væri tíminn til að standa saman og vinna saman að uppbyggingu. En hvað er þessi barátta sem hæstv. ríkisstjórn á í við undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar annað en hugmyndafræðileg barátta sem ríkisstjórnin vonast til þess að endi með landvinningum? Auðvitað er hún ekki neitt annað en það. Og farið er fram með það að leiðarljósi að nú sé verið að leita sátta. Ég hef sagt það áður í þessum stól að ég held að við höfum aldrei verið fjær því að ná sátt í þessu máli en einmitt núna.

Mikið hefur verið talað um þann fjölmenna fund sem var haldinn á miðvikudag eða fimmtudag — þeir fara að renna saman dagarnir hérna á þingi — og búið að fara ágætlega yfir það hér hvernig málflutningur einstakra stjórnarliða hefur verið hér. Þeir gera lítið úr þeim mikla samtakamætti sjómanna, fiskverkafólks, útgerðarmanna, smábátasjómanna og annarra sem komu hér til friðsamlegra mótmæla. Það hefur verið reynt að gera lítið úr því og upphefja fámennan hóp háværra einstaklinga sem einsettu sér ekkert annað á þessum fundi en að skemma fyrir og hafa hátt.

Það er merkilegt að hv. þm. Mörður Árnason skrifar pistil á Eyjuna og þar fer hann háðulegum orðum um þennan fund og segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Sjálfsprottin Facebook-mótmæli gegn mótmælum LÍÚ voru nánast jafnfjölmenn og LÍÚ-fundurinn sjálfur, og miklum mun öflugri — þegar hátölurunum sleppti.“

Nú getur vel verið, hæstv. forseti og hv. þingmenn, að Mörður Árnason hafi mun lengri reynslu af mótmælum en sú sem hér stendur og ég ætla ekki að efast um það. Ég hugsa að hv. þm. Mörður Árnason hafi áratugareynslu af mótmælum og eflaust hafa þau öll verið hávær. En hvernig vinnur maður mótmæli? Hvernig vinnur maður fund? Ég hefði haldið að tilgangurinn, og það var að minnsta kosti yfirlýstur tilgangur þess fundar sem boðað var til hér í vikunni, væri að koma sjónarmiðum málefnalega á framfæri. Fjölmargar ræður voru fluttar — og ef mér vinnst tími til ætla ég að grípa niður í eina þeirra sérstaklega — þar sem sjónarmið þeirra sem boðuðu til fundarins komu fram.

Hv. þm. Mörður Árnason talar um að sjálfsprottni mótmælahópurinn hafi verið miklum mun öflugri, en hvers vegna var það? Jú, hann var háværari. En skyldi sá hópur hafa verið þarna til þess að hlusta? Ég leyfi mér að efast um það. Þarna er Samfylkingin stödd í þessu máli, hún er stödd í uppnefnum og útúrsnúningum og leitar hvergi að sátt þar sem gott rifrildi er í boði.

Stóra fréttin af þessum fundi og skilaboðin til hæstv. ríkisstjórnar ættu kannski að vera þau að það er rétt að þarna komu fram andstæð sjónarmið. Það er rétt að þarna voru aðilar ósammála og hver er niðurstaðan af því? Jú, ég held að það megi draga þá ályktun að við séum ekki nálægt sátt í þessu mikilvæga máli. Þetta mál sem við ræðum hér er auðvitað mjög tengt fiskveiðistjórnarmálinu sem er enn fast í nefnd og ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki enn komið sér saman um lyktir á. Þessi mál eru auðvitað svo nátengd að það er ekki hægt að ljúka þessari umræðu fyrr en við vitum hverjar lyktir hins frumvarpsins verða, þannig er það.

Sérfræðingar þeir sem atvinnuveganefnd hefur kallað til sín hafa sagt að þær breytingar sem meiri hluti atvinnuveganefndar kynnti á veiðigjaldafrumvarpinu væru til bóta og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd í minnihlutaáliti sínu taka undir það. Hins vegar benda sérfræðingarnir á, og ég tek undir með þeim, að það er auðvitað ekki hægt að átta sig á því hverjar afleiðingarnar verða þegar við vitum ekki við hvaða kerfi við erum að miða. Mér finnst 15 milljarða gjald, eins og það liggur fyrir núna, sem aðilar innan greinarinnar reyndar telja að sé verulega vanáætlað, sé allt of hátt. Ég held að það væri réttast að miða við aðra tölu ef við ætlum að reyna að ná lendingu í þessu máli, og réttast væri að hæstv. sjávarútvegsráðherra rifji upp þegar hann var fjármálaráðherra og rýni í fjárlagafrumvarpið og fjárlögin, því hvaða upphæð gjalds var samþykkt þar? Það voru 11 milljarðar. Ráðherra hefur ekki getað útskýrt með neinum sannfærandi hætti af hverju það liggi svo á að fá þessa 4 milljarða til viðbótar og á hvaða grunni sú upphæð er reist. Hann hefur ekki gert það né heldur hefur hann útskýrt hvernig í ósköpunum hann ætlaði að fara að því að taka 25 milljarða af greininni eins og lagt var til í upphafi.

Það er auðvitað fráleitt að klára þessi mál svona ef einhver meining er á bak við stóru orðin um sáttina, á bak við stóru orðin sem hæstv. sjávarútvegsráðherra lét falla á starfsmannafundi í upphafi viku hjá útgerðarfyrirtækinu Brimi þegar hann fullyrti að sjávarútvegurinn þyrfti ekki að óttast hann, sjávarútvegsráðherrann, Vinstri græna eða vinstri ríkisstjórnina. Það væri ekkert að óttast þar heldur væri ógnina að finna í ástandinu á mörkuðum okkar og ástandinu í Evrópu. Það er algjörlega rétt hjá hæstv. ráðherra að auðvitað er það mikið áhyggjuefni fyrir alla sem stunda sölu og markaðssetningu á sjávarafurðum þegar efnahagsástand á mörkuðum sem þeir eiga viðskipti við versnar. Að sjálfsögðu er það mikið áhyggjuefni og ég tek undir það með hæstv. sjávarútvegsráðherra.

En hvers vegna í ósköpunum er ráðherrann á sama tíma og þetta gengur yfir, þegar mesta óvissan ríkir um markaðsaðstæður í Evrópu og reyndar víða í heiminum, að auka á þessa óvissu með því að koma með svona frumvörp sem ekki ganga upp og leggja á borð fyrir þing og þjóð? Það er spurning sem hæstv. ráðherra fékk ekki á þessum fundi og hæstv. ráðherra svarar henni vonandi hér. Ég óska eftir því að hann svari þessari spurningu: Af hverju er verið að búa til heimatilbúna óvissu ofan á þá gríðarlega miklu óvissu sem efnahagsaðstæður í Evrópu og í heiminum leggja á þessa atvinnugrein? Ég tala nú ekki um þá innbyggðu óvissu sem alltaf er til staðar í atvinnugreininni vegna þess að þar eigum við við náttúruna sjálfa. Það þarf að hafa hugfast alla tíð að það er hægt að gera áætlanir og úthluta kvótum í allar áttir í samræmi við niðurstöður rannsókna, en það er aldrei á vísan að róa í því. Ég tel þetta því vera óskiljanlegt hjá hæstv. ráðherra.

Ég vil að lokum hvetja til þess að menn svari þeirri spurningu hvað þeir vilji laga. Hvað telja menn að sé mest að? Ég geri ekki lítið úr því að staðið hafa umræður og deilur um sjávarútveginn til margra ára, en við skulum þá skoða hvað það er sem menn deila um og laga það. Menn hafa gagnrýnt þá sem seldu sig út úr greininni og fóru úr henni með fullar hendur fjár. En ég hef aldrei skilið af hverju þarf að refsa þeim sem keyptu og eru enn þá inni í greininni.

Ég rifjaði upp í fyrri ræðu minni frétt á baksíðu Morgunblaðsins þriðjudaginn 1. desember 1981. Þar er hálf baksíðan lögð undir frétt um að Byggðasjóður sé að lána 32 milljónir vegna erfiðleika útgerðar og fiskvinnslu. Því er lýst að fjölmörg fyrirtæki séu komin á vonarvöl og leiti eftir opinberum stuðningi til þess að geta haldið áfram starfsemi. Núna erum við að rífast um það hversu mikla fjármuni við eigum að taka út úr greininni. Ég held, frú forseti, að ef það er einhver vilji til að ná sátt í þessari umræðu sé það hægt. Það er hægt ef menn bakka og skoða um hvað ágreiningurinn er og koma sér upp úr þeim ömurlegu skotgröfum uppnefna, rangfærslna og útúrsnúninga sem talsmenn stjórnarflokkanna í þessari umræðu hafa verið gjarnir á að vera í. Ef við tökum dæmi utan úr heimi, hvernig ætli því yrði tekið í Svíþjóð ef forsætisráðherra Svíþjóðar færi að tala um druslurnar hjá Ikea og fíflin hjá Volvo? Auðvaldið? Er ekki stofnandi Ikea einn af ríkustu mönnum í heimi, ef ekki sá ríkasti? Ég hef aldrei heyrt forsætisráðherra Svíþjóðar hallmæla honum fyrir það. Ég hef aldrei heyrt umræðu frá Svíþjóð þess efnis að það þurfi að gera eitthvað til að bæta úr því vandamáli að þessi maður eigi aur. Nei, ég held að forsætisráðherra Svíþjóðar geri sér nefnilega grein fyrir því að það er hagur sænsku þjóðarinnar allrar að mönnum gangi vel, að atvinnulífið gangi vel (Forseti hringir.) vegna þess að þannig vegnar þjóðinni allri best. Það á líka við um íslenskan sjávarútveg og íslenska þjóð.