140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um samfylkingarfélagið í mínum heimabæ, mér er það algjörlega óskiljanlegt hvernig það ágæta félag hefur komist að niðurstöðu sinni. Ég get hins vegar fullyrt að þetta er ekki sú almenna niðurstaða sem ég greini í umræðunni í mínum góða heimabæ og tek ég fram að ég hef talað við marga úr mörgum flokkum.

Vegna spurningar hv. þingmanns um upplifunina af mótmælunum vil ég segja að ég fór aðeins yfir þau í ræðu minni og vísaði meðal annars til bloggfærslu hv. þm. Marðar Árnasonar sem sagði að þeir sem hefðu komið til að mótmæla mótmælunum hefðu unnið vegna þess að þeir hefðu verið háværari. Ég tók sérstaklega fram að hv. þm. Mörður Árnason hefði mun meiri reynslu af mótmælum en ég, en ég hélt í einlægni minni að það ætti að vera tilgangur mótmæla, og sérstaklega svona samstöðufundar sem hér var boðaður, að koma og hlusta á ólík sjónarmið. Þau sjónarmið sem heyrðust í ræðum komu úr ólíkum áttum en það var líka athyglisvert, fannst mér, að það voru fleiri hópar að mótmæla mótmælunum. Það var ekki samstæður hópur, ég varð til dæmis vitni að því þegar einn einstaklingur stóð með skilti og var að mótmæla LÍÚ og annar sem var að mótmæla einhverju allt öðru, ekki sjómaður eða í þeim hluta fundarins, ætlaði að rífa af viðkomandi skiltið. Þeir tókust á um það og það endaði með því að laminn var — óvart, ég tek það fram, fyrir slysni — í hausinn saklaus sjómaður sem stóð og hlustaði. Það endaði með því að sá þurfti að fara á slysadeild og fékk tíu spor saumuð í hausinn á sér.

Niðurstaðan af þessari stuttu útleggingu er: Sjómaðurinn stóð, hlustaði og sýndi samstöðu með sínum félögum, (Forseti hringir.) mótmælendurnir við mótmælin rifust innbyrðis.