140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir skýringuna vegna þess að ég verð að segja að ég taldi einmitt að spurning mín væri mjög tengd ræðu þingmannsins og gerði mér sérstakt far um að hlusta á það sem hv. þingmaður hafði fram að færa. Ræðan var mjög góð. Kjósendur gera væntanlega ráð fyrir að þau stefnumál sem flokkar færa fram fyrir kosningar endurspeglist síðan í gjörðum þeirra þegar þeir komast til valda.

Ég hef svo sannarlega getað tekið undir það sem hefur komið fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar hvað þessi mál varðar. Fjölmargir umsagnaraðilar hafa líka tekið undir það að búið er að hreinsa út mjög mikilvæga þætti sem varða byggðastefnu og byggðatengingar. Þess vegna er sérstaklega sárt að sjá að sá ráðherra sem fer með byggðamálin skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu. (Forseti hringir.)

Mér þykir hins vegar leitt að heyra frá hv. þingmanni að hún skuli ekki telja þessa tillögu góða (Forseti hringir.) og ég mundi gjarnan vilja heyra rökstuðninginn frá þingmanninum af hverju svo er.