140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:19]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt að það væri skráð í þingsköp að menn ættu ekki að víkja mjög verulega frá umræðuefni í ræðustóli og í því ljósi finnst mér athyglisvert að heyra þessar fréttaskýringar tveggja hv. þingmanna um skoðanakannanir, fylgi flokka og ýmislegt.

Við þingmenn vinnum eið að stjórnarskrá um að hlýða eigin sannfæringu og taka ekki við fyrirmælum frá neinum hópi kjósenda varðandi afstöðu okkar og framgöngu í þinginu. Nú tók ég eftir því í ræðu hv. þingmanns að hún er mun uppteknari af umsögnum sem borist hafa um það mál sem hér er til umræðu, m.a. gömlum umsögnum en ekki þeim sem eru nýkomnar inn, en hvað um það. Hún er mun uppteknari af þessum umsögnum og afstöðu ýmissa aðila úti í samfélaginu en af frumvarpinu sjálfu.

Ég hef líka tekið eftir því að hvorki hún né aðrir sjálfstæðismenn hafa lagt neitt til málsins. Það eru engar breytingartillögur komnar fram. Engar málefnalegar tillögur hafa komið fram í málflutningi þeirra um það hvernig við ættum að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu og gjaldtökunni fyrir nýtingu auðlindarinnar, ef menn ekki vilja samþykkja þær tillögur sem hér eru uppi. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hefur hún eitthvað til þess máls að leggja? Hvaða breytingar ef einhverjar vill hún sjá á fiskveiðistjórnarkerfinu eða vill hún engu breyta? Ég vil síðan gjarnan spyrja þingmanninn hvort það sé veiðigjaldið sjálft sem hún er mótfallin eða aðferðin sem notuð er við að reikna út gjaldið, þ.e. finna stofninn sem gjaldið er reiknað út frá því. Í þeim stofni er að sjálfsögðu tekið tillit til rekstrarkostnaðar útgerðarinnar, þar á meðal alls launakostnaðar og arðsemi (Forseti hringir.) sem útgerðinni er ætlað að taka til sín áður en farið er að leggja á veiðigjald.