140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af þeirri umræðu sem orðið hefur um skoðanakannanir og hvort það tengist ekki efni málsins. Auðvitað gerir það það og mun meira en þau uppnefni og útúrsnúningar sem margir hafa viðhaft hérna og ég vísaði alfarið á bug í ræðu minni.

Síðan finnur hv. þingmaður mér það til hnjóðs að ég skuli vera upptekin af umsögnum um þetta mál. Það þykir mér einfaldlega kostulegt. Það sem við höfum gagnrýnt í öllu þessu máli er að ríkisstjórnin taki ekki mark á þessum umsögnum og nú er skýringin komin. Það á ekkert að taka mark á þeim. (Gripið fram í.) Þær skipta greinilega ekki máli.

Við þurfum að átta okkur á því að umsagnaraðilar eru ekki bara þeir sem hafa beina hagsmuni af greininni. Umsagnaraðilar eru sérfræðingar, hagfræðingar, sérfræðingar sem nefndin sjálf kallar til. Ég nefni Daða Má Kristófersson sem dæmi. Það eru sérfræðingar í háskólum. Við erum með sveitarfélögin í landinu. Eigum við ekki að taka mark á umsögnum þeirra, hæstv. forseti? Jú, ef það er galli að vera upptekinn af umsögnum verð ég að viðurkenna að ég er mjög gölluð manneskja vegna þess að ég tek mark á umsögnum. En það þýðir ekki að ég gangi erinda einhverra eða taki sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni eða neitt á þá leið. (Gripið fram í.) Þvert á móti tek ég hagsmuni þjóðarinnar fram yfir. Það er þjóðinni mest í hag að þessari stóru mikilvægu atvinnugrein vegni vel og að öllum vegni vel sem hana stunda vegna þess að þannig kemur aukið skattfé í kassann, (Forseti hringir.) þannig verður aukin atvinna og þannig þrífast byggðirnar í landinu.