140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:24]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek ekki til mín athugasemdir hv. þingmanns um uppnefni og útúrsnúninga, tel mig ekki hafa viðhaft neitt slíkt í þessari umræðu. En aftur gerði þingmaðurinn umsagnirnar að umræðuefni. Ég er í einlægni að reyna að fá fram afstöðu þingmannsins sjálfs. Ég er að spyrja um hana. Telur þingmaðurinn efni til þess að breyta einhverju í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og getur þingmaðurinn bent á einhverja aðra aðferð sem gæti verið nothæf við að reikna út veiðileyfagjaldið?

Hagsmunir þjóðar, af því að þingmaðurinn nefndi það, liggja nefnilega undir. Við höfum staðið í mjög alvarlegum niðurskurði meðal annars í velferðarkerfinu og í þjónustu hins opinbera almennt. Á sama tíma horfum við upp á tugi milljarða berast útgerðinni í formi arðs af fiskveiðum og útgerð. Það er auðvitað sárt að horfa til þess að þjóðin, eigandi auðlindarinnar, (Forseti hringir.) skuli ekki eiga þess kost að njóta tekjustreymis af þeirri auðlind á meðan þannig árar. Því vil ég endurtaka spurningu mína til þingmannsins: Telur hún að þjóðin (Forseti hringir.) sé þess ekki umkomin að njóta neins af arði fiskveiða og vinnslu?