140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í spurningu þingmannsins kristallast grundvallarskoðanamunur mín og hv. þingmanns. Hún spyr: Telur þingmaðurinn ekki að þjóðin eigi að vera þess umkomin að njóta arðsins af sjávarútveginum? Ég tel að þjóðin geri það nú þegar og er algerlega sannfærð um það. En ég get upplýst hv. þingmann um það og gerði það í fyrri ræðu minni og ég veit ekki betur en ég hafi gert það mjög oft í þessum sal, að auðvitað mætti eitt og annað betur fara. Kvótakerfið er mannanna verk. Við sjálfstæðismenn komum á veiðigjöldum í kjölfarið á miklu nefndarstarfi og þess vegna er óþarfi að spyrja hvort við séum sammála því að hafa veiðigjöld. En þessi eru of há.

Hv. þingmaður kallar eftir breytingartillögum. Ég gef boltann (Forseti hringir.) yfir til hv. þingmanns sem á sæti í nefndinni. Við skulum ræða um það að lækka þetta gjald. Byrjum á því. (Gripið fram í.)