140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

eignir SpKef.

[10:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu málefni. Jú, það er rétt að niðurstaðan er komin og ljóst er að við þurfum að greiða rúma 19 milljarða sem vantar upp á að við getum staðið við þau fyrirheit og þær yfirlýsingar sem stjórnvöld hafa gefið um að innstæður landsmanna væru tryggðar. Innstæður Suðurnesjamanna og viðskiptavina Sparisjóðsins í Keflavík eru tryggðar eins og innstæður viðskiptavina annarra banka.

Því miður var það svo að eignasafnið reyndist ákaflega slæmt. Í fyrstu héldu menn að eignasafnið væri í betra ásigkomulagi en annað kom í ljós. Það var í mjög slæmu ásigkomulagi og því betur sem það var skoðað þeim mun betur kom staðan í ljós. Niðurstaðan er þessi og þetta er sem sagt sá kostnaður sem ríkið þarf að bera til að geta staðið við yfirlýsingar um að allar innstæður landsmanna séu tryggðar.

Við eigum von á skýrslu sem rannsakar fall sparisjóðanna. Hún kemur í haust og þá hef ég trú á því að skoðað verði hvernig á því stóð að þetta flaggskip Suðurnesjamanna, þessi 100 ára stofnun fór svo illa sem raun ber vitni.