140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

ábyrgð á fjármálastofnunum.

[10:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum mál sem við höfum oft tekið upp í sérstökum umræðum, oft tekið upp í hv. viðskiptanefnd og ekki að ástæðulausu. En ef ég skil hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra rétt þá ber hann ekki ábyrgð á neinu sem þar hefur komið fram.

Eftir að þessi ríkisstjórn tekur við fóru menn í það að endurreisa þessar fjármálastofnanir eins og aðrar. Ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra hver beri til dæmis ábyrgð á lánveitingum til VBS Fjárfestingarbanka og Saga Capital. Hver ber ábyrgð á því að Bankasýsla ríkisins — sem hæstv. ríkisstjórn setti upp til að halda utan um eignarhlut ríkisins og kostaði skattgreiðendur hundruð milljóna króna — fór ekki með eignarhlut í tveim fjármálafyrirtækjum, þ.e. SpKef og Byr? Hver ber ábyrgð á SpKef, sem fór á hausinn nokkrum mánuðum eftir stofnun, og Byr? Hver ber ábyrgð á því að hugsanlega skeikar 14 eða 25 milljörðum, miðað við það mat sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og aðrir ráðherrar lögðu upp með, ef ekki ráðherrar í viðkomandi ríkisstjórn?

Hæstv. fjármálaráðherra vísaði til þess að þetta snerist allt um innstæðutryggingarnar. En hver ber ábyrgð á því að innstæðurnar hafa aukist verulega í þessum stofnunum frá því að ríkisstjórnin og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hélt utan um þá eignarhluti?

Ég vil vekja athygli á því að þessar stofnanir uppfylltu ekki lögbundin eiginfjárhlutföll en söfnuðu samt innlánum og stofnuðu ný útibú, annað þeirra í það minnsta. Og hver ber ábyrgð á því, virðulegur forseti?