140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

ábyrgð á fjármálastofnunum.

[10:47]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg skýrt hver ber ábyrgð í hvaða tilvikum og hv. þingmaður veit það mætavel. Stjórnendur fjármálastofnana bera ábyrgð á þeim þangað til þeir hafa verið sviptir forræði yfir þeim eða þeir hafa sagt sig frá því með því að tilkynna félögin til gjaldþrotaskipta Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með einstökum fjármálastofnunum, veitir þeim starfsleyfi, eftir atvikum undanþágur eða tekur af þeim starfsleyfi ef þau uppfylla ekki lengur kröfur. Hlutverk fjármálaráðuneytisins í þessu hefur á grunni neyðarlaganna allt frá byrjun verið það að vera viðtökuaðilinn ef undirbúa þyrfti stofnun nýrrar fjármálastofnunar til að taka við innstæðunum þannig að hægt væri að efna yfirlýsingu sem fyrri ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn hafa gefið út um það að allar innstæður landsmanna í bönkum og sparisjóðum yrðu tryggðar í gegnum þetta fjármálaáfall.

Neyðarlögin eru lagagrunnurinn og strax í fjárlögum fyrir 2009 fær ríkið heimildir til að annars vegar leggja allt að 385 millj. kr. fram í hlutafé í nýja banka og allt að 14 milljarða í sparisjóði. Þetta ætti hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að vera mjög vel kunnugt vegna þess að hann var settur fjármálaráðherra þegar kom að því að undirbúa þessar ákvarðanir af því að þáverandi fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, sagði sig frá málinu vegna stofnfjáreignar sinnar í Byr. Guðlaugur Þór Þórðarson var einmitt starfandi fjármálaráðherra í þessu máli þegar það fór af stað á grundvelli neyðarlaganna og heimilda í fjárlögum. Í fréttum sjónvarpsins 21. des. 2008 er því slegið upp að ríkisstjórnin sé að afla sér heimilda til að styrkja banka og sparisjóði um 400 milljarða kr. Niðurstaðan er langt innan við 200 milljarðar, þannig tókst til að lágmarka þennan kostnað.

Það er ekki hátt risið á því hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, né þess vegna formanni Sjálfstæðisflokksins eða formanni Framsóknarflokksins, (Forseti hringir.) að rembast nú eins og rjúpan við staurinn við að koma ábyrgðinni af þessu hruni og þessum skelfilega leiknu fjármálastofnunum af þeim sem stjórnuðu (Forseti hringir.) þeim yfir á fjármálaráðuneytið sem fékk það öfundsverða hlutskipti að vinna úr málunum þegar allt var komið í kalda kol.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)