140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

endurreisn SpKef.

[10:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að ráðherrar þurfi að sofa lengur á morgnana, menn koma mjög úrillir til starfa. Mig langar að beina spurningum til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um það málefni sem rætt hefur verið í morgun varðandi SpKef.

Engum dylst að að sjálfsögðu bera þeir er stjórna fjármálafyrirtækjum í aðdraganda hrunsins mikla ábyrgð. En ekki liggur síður ábyrgð hjá þeim sem voru við stjórnvölinn í framhaldinu þegar endurreisa átti fjármálakerfið og koma því aftur af stað. Við höfum margsinnis rætt ýmis mistök sem stjórnarandstaðan í það minnsta telur að gerð hafi verið við endurreisn fjármálakerfisins. Ég vil skora á ráðherra og stjórnarflokkana að hlaupast ekki undan því að kannast við það að bera einhverja ábyrgð á því ef eitthvað hefur farið úrskeiðis við endurreisn fjármálakerfisins.

Mér finnst margt benda til þess, frú forseti, að mistök hafi verið gerð varðandi SpKef. Þá veltir maður því fyrir sér hvort átt hefði að fara aðrar leiðir sem var, að því er mig minnir, bent á. Menn spyrja sig hvers vegna ekki hafi verið brugðist við á þann veg, hvers vegna ríkisstjórnin, núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, kaus að setja peninga inn í þessi fjármálafyrirtæki, fjármuni sem eru glataðir í dag, þ.e. í Saga Capital, VBS og núna SpKef. Hvað átti þetta að þýða?

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hefði ekki verið ódýrara að gera sjóðinn upp og hreinlega að tryggja fólki þá þær innstæður sem það átti í þessum sjóði? Hvernig hefði það farið? Mig langar líka að spyrja ráðherrann hvort eignastofn bankans hafi verið svo stórlega vanmetinn að þessi staða sé komin upp þess vegna. Við hljótum þá að spyrja: Hver ber ábyrgð á því að vanmatið var svona herfilegt ef það er staðan?

Úr því að við erum að ræða ábyrgð og ekki ábyrgð, þá langar mig að spyrja ráðherrann beint út: Hvaða mistök voru gerð af hálfu stjórnvalda vegna SpKef?