140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

viðbúnaður vegna óróa á evrusvæðinu.

[11:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði að það væri lán í óláni að spænski ríkissjóðurinn hefði verið skuldlaus. Það var líka lán í óláni eftir stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins að ríkissjóður var skuldlaus. En spurning mín til hæstv. ráðherra er: Stjórnast hann af vilja til að leysa þennan sameiginlega vanda þjóðarinnar? Ég gef lítið fyrir stóran gjaldeyrisvarasjóð sem allur er tekinn að láni, ég gef lítið fyrir allar ráðstafanirnar sem og gjaldeyrishöft og annað slíkt ef verðlag á útflutningsvörum okkar og ferðaþjónustu lækkar verulega. Hæstv. ráðherra kom ekki inn á áhrif hækkunar á veiðigjaldinu úr 9 kr. í 40 kr., einmitt í þessari stöðu þegar miklar og skyndilegar breytingar geta orðið á stöðu sjávarútvegsfyrirtækja. Að óbreyttu er gert ráð fyrir að nokkur fyrirtæki muni fara á hausinn, en ef útflutningsverðlagið lækkar enn frekar er spurningin: Er gæfulegt að hækka veiðiskattinn svona mikið?