140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

viðbúnaður vegna óróa á evrusvæðinu.

[11:07]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi veiðigjöldin er einmitt lögð mikil áhersla í aðferðafræðinni þar að baki að þau séu mjög næm fyrir afkomu greinarinnar. Ef aðstæður breytast eins og þær að afurðaverð lækkar eða gengi krónunnar styrkist eða annað slíkt gerist sem breytir afkomunni, er formúlan þannig úr garði gerð að hún er mjög næm fyrir því og lækkar gjaldið strax þegar slíkar breytingar verða. Þetta er reyndar mjög mikilvægt og á það hefur verið lögð áhersla því að að sjálfsögðu þarf að taka strax tillit til þess (Gripið fram í.) ef afkoman eða framleiðnin og fjármunamyndunin í greininni minnkar. — Það er reyndar ekki rétt, hv. þingmaður, og fyrir því er séð með framreikningi á m.a. verðvísitölu sjávarútvegsins.

Mér finnst ógætilega talað um gjaldeyrisvaraforðann og hann í raun talaður niður með orðalagi af þessu tagi. Veruleikinn er sá að í gjaldeyrisforðanum núna eru lán ríkisins upp á 2 milljarða bandaríkjadala, annars vegar til fimm ára og hins vegar til tíu ára. Þetta er löng fjármögnun og vildu sjálfsagt mörg ríki vera í þeim sporum að þurfa ekki mánaðarlega (Forseti hringir.) að sækja sér fjármagn á markað á hvaða afarkjörum sem er heldur hafa afborganir sínar og greiðsluskuldbindingar (Forseti hringir.) inn í framtíðina tryggðar með löngum lánum eins og við erum. Þar hefur tekist mjög vel til. Í tvígang hefur íslenska ríkið farið út á markað og tryggt sér fjármögnun.