140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014.

440. mál
[11:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og nefndinni allri fyrir ágæt störf að úrvinnslu þessa máls í þinginu. Það má að mörgu leyti segja að lagaramminn á Íslandi í málefnum fatlaðra sé ekki meginvandamálið, heldur eftirfylgni laganna og það að þau réttindi sem fötluðu fólki eru í orði kveðnu tryggð séu í veruleikanum tryggð.

Áætlunin er byggð á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og því vil ég inna hv. þingmann eftir því hvort einhverjir aðrir þættir standi upp á löggjafann eða hvort lögfesta eða breyta þurfi í þinginu áður en hægt er að fara í fullgildingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þegar þessi áætlun hefur verið samþykkt og ef frumvarpið um réttindagæslu fatlaðs fólks sem er á dagskrá síðar í dag verður að lögum er býsna langt um liðið síðan við skrifuðum undir sáttmálann um réttindi fatlaðs fólks. Sennilega var hann undirritaður árið 2006 en hann hefur ekki enn verið fullgiltur. Eru aðrir mikilvægir þættir í löggjöfinni sem þarf að ráða bót á áður en af því geti orðið?