140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014.

440. mál
[11:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að það sé stefnt að því að fá þetta inn á vorþinginu. Yfirferð yfir íslenska löggjöf í tengslum við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var gerð á vegum félagsmálaráðuneytisins og liggur fyrir. Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja hæstv. velferðarráðherra til að leggja fram margboðuð mál um bann við mismunun sem hafa verið á málaskrá ráðherrans, bæði á yfirstandandi þingi og á síðasta þingi, sem er mikilvægt að lögfesta til að hægt sé að fullgilda sáttmálann.

Hv. þingmaður vék að því að auðvitað færi best á því að almenn lög giltu um réttindi fatlaðs fólks eins og annarra hópa. Það er algerlega rétt hjá hv. þingmanni en eins og þingmaðurinn gat um erum við því miður enn langt frá því að vera komin í þá stöðu að það dugi til. Það er alveg ljóst að réttarvernd fatlaðs fólks verður best tryggð með sérstökum lögum.

Vegna þess að hér var nefnd lögfesting sáttmála Sameinuðu þjóðanna vildi ég inna þingmanninn eftir áliti meiri hluta nefndarinnar. Í umfjöllun um málið í félagsmálaráðuneytinu á sínum tíma kom algerlega skýrt fram af hálfu þess lögmanns sem mesta og besta sigra hefur unnið í mannréttindabaráttu fatlaðra á Íslandi fyrr og síðar að lögfesting sáttmálans yrði ekki til þess að tryggja sem best réttarvernd fatlaðs fólks. Best væri það gert með því að setja íslensk lög sem tryggðu þau réttindi sem kveðið er á um í sáttmálanum. Þannig væri vilji löggjafans skýrastur og auðveldast og best fyrir fatlað fólk að sækja réttindi sín. Sáttmálinn yrði síðan fullgiltur í kjölfarið en ekki lögfestur sem slíkur.

Ég vildi þess vegna inna hv. þingmann eftir því hvort nefndin hefði (Forseti hringir.) önnur sjónarmið en Ragnar Aðalsteinsson um þessi efni.