140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014.

440. mál
[11:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. framsögumanni velferðarnefndar, Jónínu Rós Guðmundsdóttur, fyrir yfirferð hennar á nefndaráliti meiri hlutans. Þó að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sú sem hér stendur og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, séum ekki á þessu nefndaráliti er margt þar sem við styðjum og teljum til bóta.

Mig langar hins vegar í nokkrum orðum, virðulegur forseti, að fara yfir þessa tillögu alveg frá því hún kom fram, vinnu í nefnd og síðan þær breytingartillögur sem liggja fyrir.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar sem spurði hvort skoða þyrfti eitthvað í lagarammanum til að tryggja ákveðin réttindi fatlaðs fólks vegna þess að oftar en ekki væru lögin í lagi en það væri hins vegar framkvæmd þeirra og eftirliti með að þeim væri fylgt sem frekar væri ábótavant en að athugasemdir væru við sjálf lögin.

Það hlýtur að vera meginmarkmið okkar til lengri tíma litið að í þessu landi, sem og flestum öðrum löndum, ríki ein lög um fólkið í landinu. Við getum væntanlega öll tekið undir það að íslenskt samfélag eigi að byggjast á virðingu fyrir fjölbreytileika og viðurkenningu á mannlegum margbreytileika, ekki þurfi að taka sérstaklega fram að það sé fyrir hönd fatlaðs fólks, það eigi að vera fyrir alla. Þá verðum við kannski pínulítið að velta fyrir okkur hvort svo sé og í því samhengi að sérlög séu sett hvað þetta varðar fyrir fatlað fólk. Við ættum kannski öll sem ekki erum fötluð að líta í eigin barm og velta fyrir okkur hvort virðing okkar fyrir fjölbreytileika og mannlegum margbreytileika sé fyrir hendi. Við viljum að í samfélagi okkar sé borin virðing fyrir þeim margbreytileika sem er, margbreytileika einstaklinganna eins og þeir eru margir, og því sem þeir hafa fram að færa okkur öllum til heilla. Að sjálfsögðu tökum við undir það að virða þarf þetta gagnvart fötluðu fólki, en ég ítreka að það þarf að virða þetta gagnvart öllum.

Það sem kom glöggt fram hjá þeim aðilum sem komu fyrir nefndina var að hluta til sláandi. Ýmsir sögðu að talað væri „um“ fatlað fólk en ekki „við“. Ýmis hagsmunasamtök fatlaðra hafa sagt: Ekkert um okkur nema með okkur. Þó ber að geta, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur, að hagsmunasamtök fatlaðs fólks hafa vissulega mikla þekkingu á málefnum fatlaðra og þar eiga sæti fatlaðir einstaklingar sem komu að gerð þessarar þingsályktunartillögu. Við erum pínulítið föst í því að tala um fólk en ekki við fólk og vinna fyrir fólk en ekki með fólki. Það er áskorun til okkar sem og annarra að vinna verkin og löggjöfina með þeim sem eiga síðan að halda utan um og vinna verkin fyrir þá sem löggjöfin er. Við erum hér í stóru stríði um frumvarp sem ekki er unnið með fólki heldur kannski fyrir fólk og ólík sjónarmið og ólík hugmyndafræði liggur að baki því hvernig nálgast eigi verkefnið.

Mig langar að nefna nokkur atriði, virðulegur forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. framsögumanns nefndarálitsins er hér um stefnumótun að ræða um ákveðna framkvæmdaáætlun. Við getum að sjálfsögðu tekið undir það að í byggingarlögum eigi að vera skýrt afmarkað að allar byggingar skuli hafa aðgengi fyrir fatlað fólk, ég tala nú ekki um opinberar byggingar, skóla, allar opinberar stjórnsýslustofnanir, sjúkrahús, heilsugæslu og allt í þeim dúr. Þó að kannski sé ekki hægt að krefjast þess að öll hús sem byggð eru, svo sem einkaheimili, séu með aðgengi fyrir fatlaða þarf engu að síður að taka mið af því. Þar ráða sveitarfélögin för, sem hafa deiliskipulagsvaldið og veita heimildir og samþykkja teikningar og annað í þeim dúr. Þetta þarf að vinna í samvinnu við þá sem fara með það vald.

Mig langar að greina frá því hér og nú að í eitt skipti í kosningabaráttu settist ég í hjólastól og fór um sveitarfélag mitt. Það var merkilegast þegar ég kom að hraðbönkum því að það var gjörsamlega vonlaust fyrir mig sitjandi í hjólastól að taka út peninga. Hvar átti að setja inn pinn-númer? Síðan voru valmöguleikarnir svo hátt uppi að það náðist ekki fyrir fatlaðan einstakling í hjólastól að lesa þá. Það eru ýmis svona smáatriði, virðulegur forseti, sem skipta verulegu máli og auðvelda fólki að ferðast um. Ég tek því undir þann þátt.

Það kom fram í nefndinni að mönnum þótti notendastýrð persónuleg aðstoð fá ótrúlega lítið vægi í þessari stóru og miklu áætlun. Slík vinna er í gangi og þeim hópi veitir forstöðu hv. þm. Guðmundur Steingrímsson. Notendastýrð persónuleg aðstoð er það sem við viljum sjá og nálgast í náinni framtíð þar sem sá sem þarf á þjónustunni að halda stýrir henni og ræður með hvaða hætti hann nýtur þeirrar þjónustu. Leggja hefði þurft frekari áherslu á það.

Ég sagði hér áðan, virðulegur forseti, og stend á því að okkur er gjarnt að tala um fólk en ekki við fólk. Ég held að grundvallaratriðið þegar farið verður að vinna samkvæmt þessari framkvæmdaáætlun og þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til, sem allar eru af hinu góða og eru skynsamleg nálgun á verkefnið, sé samvinnan við hina fötluðu sem eiga að njóta þeirrar þjónustu sem fram kemur í þessari áætlun og að vera virkari. Við þurfum að horfa frekar til þess hvernig þeir sjá lífi sínu best borgið ef við getum orðað það svo.

Ef við tökum dæmi á bls. 14, „F.3 Valdefling og notendasamráð“, segjum við: „Að efla og styrkja valdeflingu og notendasamráð í þjónustu við fatlað fólk.“ Við erum alltaf að tala til þeirra. Það hefði mátt fara betur yfir og skoða með hvaða hætti við ætluðum að ná valdeflingu og notendasamráði með fötluðu fólki til að þeirra ákvarðanir um þjónustu sæjust og kæmu fram. En eins og ég sagði áðan ber þessi þingsályktunartillaga þess merki, að mínu mati, að talað er „til“ en ekki „við“.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég mun í það minnsta leggja til að þessi þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks verði samþykkt. Ég ítreka það að í vinnslu hennar þurfi þeir sem um hana sjá og með hana vinna að horfa til þess að vinna með þeim sem eiga að njóta þjónustunnar en ekki fyrir þá.

Eins og ég sagði í upphafi er lagaramminn ágætur en það er þeirra sem vinna innan lagarammans að tryggja að vilji löggjafans komi glöggt fram í þeirri vinnu sem fram undan er.