140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014.

440. mál
[11:42]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar unnið var að yfirfærslu og samningum milli stjórnvalda ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um yfirtöku sveitarfélaga á málefnum fatlaðra var m.a. í þeim undirbúningi lögð fram skýrsla frá Ríkisendurskoðun þar sem gerð var úttekt á málaflokknum staða fatlaðra. Í þeirri úttekt kom skýrt fram að það skorti alla framtíðarsýn og framkvæmdaáætlun af hálfu ríkisins í þessum mikilvæga málaflokki.

Það er því sérstakt fagnaðarefni að nú skulum við á Alþingi vera að afgreiða frá okkur skýra framtíðarsýn og framkvæmdaáætlun í þessum málaflokki sem unnin er í breiðu samkomulagi allra þeirra aðila sem að málinu koma. Lagt er upp með að þróa, bæta og efla þjónustu og styrk og stöðu fatlaðra í samfélaginu. Það er ekki síður mikilvægt að þessi áætlun er sett fram á þeim grunni að hún er hluti af undirbúningi fyrir það endurmat sem mun fara fram í árslok 2014 á fyrstu árum þeirra sem hafa gengið fram í stjórn og stýringu sveitarfélaganna á þessum stóra og mikilvæga málaflokki.

Ég fagna því, eins og ég sagði áður, að við skulum vera komin þetta áleiðis með málið. Það fékk ítarlega og góða umfjöllun í velferðarnefnd. Sá texti sem kom þar inn á borð hefur, að mínu mati og okkar í nefndinni, verið betrumbættur. Nefndarmenn hafa lagt áherslu á að setja þetta efni þannig fram að það sé gert á ábyrgan og traustan hátt og um það geti ríkt góð sátt.

Ég hef hins vegar orðið var við að það gætir ákveðins misskilnings þegar jafnmetnaðarfullar hugmyndir og áætlanir eru settar fram um að þeir aðilar sem að málum koma eða einstökum málaflokkum innan þessa stóra framkvæmdaramma líti svo á að þetta sé ógerlegt og ekki hægt að sjá hvernig eigi að koma öllum þeim málum í framkvæmd sem um ræðir vegna þess að ekki fylgi stórfelldar fjárhæðir þessari framkvæmdaáætlun.

Þá ber að vekja sérstaka athygli á því að framkvæmdaáætlunin er sett fram í nokkurs konar tvöföldu formi. Annars vegar er undirbúningstímabil sem á að fara fram á árunum 2013–2014 og lýtur að því að yfirfara og leggja fram áætlanir um það hvernig menn ætli að ná þeim markmiðum sem hér eru sett fram með margvíslegum hætti og kostnaðarmeta það verkefni. Þar er auðvitað um misstór verk að ræða, en sum þeirra eru æðiumfangsmikil og stórtæk og metnaðarfull og eiga að vera það. Ég bendi í þeim efnum sérstaklega á tvo þætti sem koma fram undir kaflanum Sjálfstætt líf, sem lúta annars vegar að notendastýrðri persónulegri aðstoð sem við erum að fara fram með sem nýtt verkefni núna og 300 milljónir hafa verið settar í í tilraunaverkefni á árunum 2012, 2013 og 2014. Það verkefni er komið vel á veg og nú þegar er búið að auglýsa eftir umsóknum sveitarfélaganna til að fara fram með tilraunaverkefni í þá veru hvert á sínu svæði. Hinn þátturinn sem er kannski fjárhagslega umfangsmestur snýr að vali um búsetu og húsnæðisgerð. Ljóst er að einn stærsti þáttur í því að tryggja sjálfstæði fatlaðra er að tryggja þeim sjálfstæði til búsetu og að val sé um búsetu og búsetuform sem almenningur á alla jafna. Við þekkjum að þar hefur auðvitað orðið umtalsverð breyting á umliðnum árum með tilkomu sambýla í stað þeirra stofnana sem áður voru búsetuform, en sambýli hafa þróast úr herbergjasambýlum í íbúðasambýli. Nú er umræðan fyrst og fremst tengd því að skapa sjálfstæða búsetu með stuðningi. Það er ljóst að hér er um gríðarlega stórt og mikilvægt verkefni að ræða.

Kostnaðargreining og undirbúningur fyrir þörf í þessum efnum er það sem þarf að einbeita sér að nú á næstu tveimur árum samhliða því að sveitarfélögin eru búin að taka við þeim húsakosti og þeim íbúðum sem áður voru undir Framkvæmdasjóði fatlaðra og eru að endurmeta og endurskoða þörfina heima í héraði og möguleika á breytingum á húsnæði þar sem sannarlega er brýn þörf á að bæta úr aðstöðu.

Ég ítreka enn og aftur, vegna þess að ég hef orðið var við það í máli sveitarstjórnarmanna og ýmissa annarra að menn hafa litið svo á að þær 150 milljónir sem settar eru í undirbúningsferli þessa máls séu heildarframlag í þetta verkefni miðað við þau markmið og meiningar sem hér eru settar fram, að þær 150 milljónir eru til að kosta það undirbúningsferli og þá yfirferð og þarfagreiningu sem á að fara fram á árunum 2013 og 2014. Í framhaldi af því fer fram heildarendurmat milli ríkis og sveitarfélaga á því hvernig til hefur tekist með yfirfærsluna varðandi þjónustu við fatlaða og hvernig stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, ætla að kosta til frambúðar þau verkefni og þær endurbætur og þá uppbyggingu sem hér er lagt af stað með í metnaðarfullri framkvæmdaáætlun.

Ég treysti því að sú vinna sem þarf að vinna á næstu 24 mánuðum verði unnin af krafti og dug á öllum þjónustusvæðum og við fáum fram þá heildarmynd sem þarf og traust kostnaðarmat til að hægt verði að ná samkomulagi um það hvernig menn ætla að fylgja þessu máli eftir til lengri framtíðar.