140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014.

440. mál
[11:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir þau atriði sem hann minntist sérstaklega á. Mig langar að koma aðeins inn í þá umræðu varðandi lið C.6 Val um búsetu, en hv. þingmaður tók fram að ákveðins misskilnings hefði gætt um hvað fælist í þeirri áætlun.

Mig langaði bara að lýsa því yfir að ég skil þann misskilning fullkomlega. Ég hef haft ákveðnar athugasemdir um heitið á tillögunni þar sem lesa má það út úr því að þetta sé tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun, þ.e. að fara eigi í að framkvæma þetta allt samkvæmt þessari áætlun til ársins 2014. Ég skil því einfaldlega þann rugling sem hv. þingmaður talaði um.

Ég hef haft áhyggjur af þessum búsetulið allt frá því að lagt var upp með það að sveitarfélögin tækju yfir verkefnið um þjónustu við fatlað fólk vegna þess að mikið er eftir að gera vaðandi húsnæðiskostinn. Ég hafði áhyggjur af því að ekki væri gengið frá þeim atriðum fyrir fram, þessi kortlagning færi ekki fram áður en yfirfærslan ætti sér stað o.s.frv. þannig að ég skil áhyggjur sveitarstjórnarmanna um að sveitarfélögin muni á endanum þurfa að fara í slíka uppbyggingu á sinn kostnað vegna þess að ekki var gengið frá þessu fyrir fram. En auðvitað vonast ég til að svo verði ekki. En víða er pottur brotinn og sem dæmi má nefna að afskaplega lítið er um húsnæði fyrir fatlað fólk til dæmis í Rangárvallasýslu og einstaklingar þaðan hafa þurft að sækja sér húsnæði og búsetu út fyrir sýsluna og taka sér búsetu til dæmis í Árnessýslu eða í Reykjavík. Það er eitthvað sem við getum ekki horft upp á að sé framtíðarsýn okkar.