140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014.

440. mál
[11:52]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir athugasemd hennar hvað þetta varðar. Ég hef haft einna mestar áhyggjur af nákvæmlega þessum þætti og ég held að það skipti miklu máli að allir séu á sama byrjunarreit og horfi í sömu átt varðandi næstu ár og framtíð í þessum efnum.

Við höfum núna verið að ganga í gegnum mjög miklar breytingar varðandi yfirtökuna þegar sveitarfélögin tóku yfir þann húsakost sem Framkvæmdasjóður fatlaðra hafði áður á sinni hendi. Þar hefur verið tryggt í sambandi við uppbyggingu á húsnæðissjóði jöfnunarsjóðs, sem fékk í raun og veru umtalsverða fjármuni í sínar hendur, að tryggja uppkaup, fjármögnun og rekstur þessa húsnæðis, sem telur hátt í 100 íbúðareiningar vítt og breitt um landið. En það er alveg ljóst eins og hv. þingmaður benti á að auðvitað eru mismunandi aðstæður eftir þjónustusvæðum. Það þarf að jafna þá stöðu og sums staðar þarf að byggja upp meira en á öðrum stöðum.

Til framtíðar er líka ljóst, ef við horfum bara á næstu ár og áratugi fram í tímann, að aukin þörf mun verða fyrir uppbyggingu ofan á þann húsakost og þá þjónustu sem er til staðar í dag og það verða líka kröfur um annars konar íbúðarform í sjálfstæðri búsetu frá því sem við höfum horft á í stofnanavæddri þjónustu eða í herbergjaskipan á sambýlum. Það er mjög stórt verkefni fram undan og horfa þarf á heildarmyndina í þessum þætti, hvernig á að tryggja fjármagnið í þetta og hvernig á þá lánsfjármögnun og lánskjörin að vera sem sveitarfélögunum standa til boða til að fara í þessar framkvæmdir.