140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[15:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stefnu um beina erlenda fjárfestingu. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni þegar við ræðum svo mikilvæg mál og mál sem maður skyldi ætla að væru til þess fallin að varpa aðeins skærara ljósi á framtíðina til að vita betur og sjá hvert við ætlum að stefna.

Í fylgigögnum með þessari tillögu og athugasemdum, af því að þingsályktunartillagan sjálf er eins og gengur yfirgripsmikil en ekki mikið um útfærslur, er ýmislegt að finna sem er bæði jákvætt og neikvætt og eins eru í nefndarálitinu nokkur atriði sem mikilvægt er að koma inn á.

Þar kemur fram að í tillögunni er stjórnvöldum falið að hrinda af stað átaki til að laða að og auka hér veg erlendrar fjárfestingar enda er full þörf á því. Það kemur m.a. fram í þessum gögnum að líklega hefur aldrei verið jafnmikilvægt að erlend fjárfesting sé til staðar og helst í töluverðum mæli, en að sama skapi er því ekki til að dreifa að slíkt hafi gengið eftir hér eins og það er gríðarlega mikilvægt. Með fjárfestingum erum við að sjálfsögðu að styrkja atvinnulífið og fjölga störfum og auka fjölbreytni o.s.frv. þannig að þeir styrkleikar sem Ísland býr yfir fái notið sín, styrkleikar sem eru að sjálfsögðu þekktir eins og umhverfisvæn orka, menntað og hæft vinnuafl, nægt landrými og ýmislegt fleira sem er eftirsóknarvert og er ekki alls staðar nægt framboð af í heiminum eins og góða vatnið sem við eigum hér bæði kalt og heitt.

Ég vek athygli á því að mér sýnist allir nefndarmenn vera á álitinu, sumir reyndar með fyrirvara en það er samt gott að almennt hafi menn verið sáttir um það sem þar er sagt. Í nefndarálitinu kemur fram að áhersla sé lögð á aukið markaðsstarf. Það þarf að sjálfsögðu að selja það sem er í boði með einhverjum hætti. Fyrir nokkru vakti það athygli mína á fyrirlestri eða fundi, minnir mig, þar sem við vorum að bera saman starfsemi Fjárfestingarstofu Íslands og sambærilegs apparats á Möltu að þrír til fjórir starfsmenn eru hjá okkur en ég held að þeir séu eitthvað um 50 á Möltu, enda sjáum við í fylgigögnum að umsvifin þar eru töluvert meiri. Ég er ekki að segja að við þurfum endilega að fara upp í 50 starfsmenn en við ættum að gefa því gaum að efla með einhverjum hætti og auka tæki og tól og getu Fjárfestingarstofu til að vinna þau góðu verkefni sem sú stofa vinnur. Ég hef sjálfur átt ágæt samskipti við starfsmenn Fjárfestingarstofu áður en ég kom inn á þing og það er alveg til fyrirmyndar hvernig vinnan þar er og við eigum að efla stofnunina eins og við mögulega getum.

Það kemur líka fram í fylgigögnum og nefndarálitinu að ákveðnir óvissuþættir eru til staðar varðandi fjárfestingar á Íslandi og suma þeirra þekkjum við vel til. Líka er bent á hversu mikilvægt er að samkeppnishæfni sé til staðar og að við getum laðað að okkur áhugasama fjárfesta sem vilja koma. Þá þurfum við að hafa sem breiðasta og víðtækasta sýn á hvers konar starfsemi við viljum hafa hér á landi. Ég held að þar eigi í sjálfu sér flest að vera undir. Við höfum getið okkur gott orð þegar kemur að iðnaði, ferðaþjónustu og ýmsu slíku og eigum að leita áfram eftir fjárfestum sem geta nýtt þá yfirburði, ef ég má orða það svo, sem Ísland hefur.

Sumir segja að staðsetning landsins sé ókostur. Ég er ekkert viss um að svo sé, auðvitað eru einhver flutningsvandræði og þess háttar en staðsetningin er hins vegar góð að því leytinu til að hún er mitt á milli austurs og vesturs og því stutt í stóra markaði.

Í athugasemdum með þingsályktunartillögunni sjálfri stendur, með leyfi forseta:

„Um árabil hefur erlend fjárfesting verið lítil hér á landi og umhverfi erlendrar fjárfestingar verið gagnrýnt fyrir að vera flókið og óaðgengilegt. Fjárfesting er lykilatriði fyrir efnahagsþróun hér á landi eftir hrun. Reynsla undanfarinna áratuga sýnir hversu varhugavert það er að reisa efnahagslíf alfarið á erlendu lánsfé. Efnahagslegur ávinningur af erlendri fjárfestingu er mun meiri en af innlendri fjárfestingu, byggðri á erlendri lántöku.“

Þetta er mikilvægt að hafa í huga því að það er að sjálfsögðu betra fyrir efnahagslífið okkar að við fáum hingað fyrirtæki með fjármuni sem lagðir eru í púkkið í staðinn fyrir að við séum að taka erlend lán sem eru yfirleitt veitt í fimm gjaldmiðlum, ef ég man rétt, sem er ákveðin áhætta út af gengi og öðru fyrir okkur.

Eitt aðalfylgiskjalið með þessari stefnumörkun eru tillögur starfshóps sem skipaður var af iðnaðarráðherra um þessa tillögugerð. Hópurinn var skipaður að mér sýnist í október 2010. Hann skilaði samantekt og tillögum um hvað þyrfti að gera og hvað mætti bæta. Nokkur atriði má nefna. Eitt atriði sem nefnt er er að Íslendingar eigi að hafa meira frumkvæði í að nálgast erlenda fjárfesta, þá væntanlega í gegnum fyrirtæki eða skrifstofur eins og Fjárfestingarstofu. Fram kemur að við þurfum að hafa skýrari leikreglur og nokkuð ljósa framtíðarsýn. Mikilvægi Fjárfestingarstofu kemur líka fram, frú forseti. Einnig er aðeins fjallað um þá áhættu sem er til staðar á Íslandi. Við komumst ekki hjá því að nefna það að svokölluð landsáhætta er mikil á Íslandi, þ.e. sá pólitíski óstöðugleiki sem virðist vera til staðar á Íslandi er neikvætt merki. Það er í rauninni merkilegt að við skulum ekki gera meira af því að reyna að koma okkur áfram í þeim efnum því að við erum í hópi með Rússlandi, Egyptalandi, Tyrklandi, Kína og Sádí-Arabíu, svo dæmi séu tekin, þegar kemur að þessum áhættuþáttum. Svona til að bíta hausinn af skömminni hefur efnahags- og samvinnustofnun Evrópu, OECD, birt nýlega, eða 2010, uppfærða skýrslu um hvar hindranir erlendrar fjárfestingar eru hvað mestar og þar er Ísland næst á eftir Kína. Það er ekki ákjósanlegt að við séum á þessum stað. Við eigum að mínu viti að vera þokkalega opið land með skýra og einfalda stjórnsýslu án þess að gefa nokkuð eftir af þeim kröfum sem við viljum halda á lofti. Við þurfum ekki að gefa eftir í kröfum til umhverfis eða áhættuþátta og slíks þó að við einföldum laga- og stjórnsýsluumhverfið allt saman.

Það kemur líka fram að fyrirtæki sem ætlaði að framleiða hér sólarrafhlöður hætti við vegna þess að það hafði ekki staðfestingu á því að stjórnvöld mundu virða þá tímafresti sem eru varðandi lögboðið umhverfismat. Svona mætti áfram telja. Þetta er held ég eitt af því sem núverandi stjórnvöld, meiri hluti Samfylkingar og Vinstri grænna, hafa brugðist í, þ.e. að gera Ísland að trúverðugum kosti þegar kemur að því að fjárfestar skoði möguleika fyrir starfsemi sína. Einnig kemur fram að kanadískt fyrirtæki hafi farið frá Íslandi og þá væntanlega til Kanada vegna þess flækjustigs sem hér er.

Auðvitað þurfum við að fara varlega, en það er fullt af tækifærum fyrir Ísland. Það kemur fram í þessari skýrslu að tækifærin liggja í þeim þáttum sem ég nefndi í upphafi að við þekktum. Tækifærin liggja í umhverfisvænni orku sem á að vera hægt að selja og markaðssetja sem slíka. Hér er landrými, hér er vatn og hér er mannauður. Við liggjum vel við samgöngum. Samfélagslegir innviðir eru mjög sterkir, en við verðum að sjálfsögðu að hafa pólitískan stöðugleika sem er ekki að finna samkvæmt þessum fylgigögnum og er það verulegt áhyggjuefni.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum benda á þessu tengt að þingmenn hafa lagt fram á Alþingi ýmis mál sem lúta að því að gera umhverfið fyrir atvinnulíf bærilegra eða auðveldara og áhugaverðara. Þingflokkur framsóknarmanna hefur lagt fram a.m.k. þrjú þingmál um slíkt sem ég veit ekki til að hafi fengið neina umfjöllun í nefndum Alþingis og er það miður því að atvinnumál eru ein þeirra brýnustu mála sem við eigum að vera með uppi á borði þessa dagana.

Frú forseti. Ég læt þessu lokið að sinni.